Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Liechtenstein
Á morgun spilar íslenska karlalandsliðið sinn annan leik í undankeppni EM 2024. Andstæðingurinn er Liechtenstein. Landsliðsþjálfarinn Arnar Þór Viðarsson og fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson sátu fyrir svörum á fréttamannafundi í dag.
Arnar var auðvitað spurður út í tapið slæma gegn Bosníu á fimmtudag. Þar tapaði Ísland 3-0.
„Það er alltaf hundleiðinlegt að tapa leikjum. Ég held við séum öll sammála um það að við vildum gera betur.
Það var ákveðin eftirvænting og við hlökkuðum til. Við vonuðumst til að ná góðri frammistöðu, sem gekk ekki.“
Á morgun er hins vegar nýr leikur og segir Arnar einbeitinguna vera komna á hann.
„Það er þannig í íþróttum að þú þarft að snúa einbeitingunni að næsta verkefni og það er á morgun.“
Hann sagði svo frá því hvernig hann og liðið skildu við tapið í Bosníu.
„Við tókum góðan fund í gærkvöldi allir saman. Við fórum yfir hlutina og þá er það bara búið.“