Ritgerð sem blaðamaðurinn, Jóhann Ingi Hafþórsson, hefur skilað af sér og er nú aðgengileg á Skemmunni varpar ljósi á þá krísu sem skapaðist hjá KSÍ þegar leikmenn í liðinu voru sakaðir um kynferðisbrot. Í ritgerð Jóhanns er rætt við starfsmenn KSÍ sem voru á staðnum þegar allt fór í bál og brand.
Rætt var um ritgerðina í Íþróttavikunni með Benna Bó sem er á dagskrá Hringbrautar öll föstudagskvöld. Tómas Þór Þórðarson, ritstjóri enska boltans hér á fróni, kom og fékk sér sæti ásamt Herði Snævari Jónssyni, íþróttafréttastjóra Torgs.
Það sem vakti hvað helst athygli í ritgerðinni var að prúðmennið Ómar Smárason, samskiptastjóri KSÍ, fer hamförum og lætur allt flakka. „Honum hefur legið ýmislegt á hjarta. Maður hefði átt að vera búinn að taka þetta viðtal við hann,“ sagði Hörður og glotti út í annað. Hann hélt svo áfram.
„Ég tek út úr þessari ritgerð að ef menn ætla ekki að segja satt þá er betra að segja ekki neitt. Ómar virðist hafa verið að hamra á því við þáverandi formann að segja sannleikann og allan sannleikann. Og ef hann ætlaði ekki að segja allan sannleikann þá er betra bara að þegja.“
Ómar segir í ritgerðinni að það hafi alls ekki verið góð hugmynd að fara í þetta margfræga Kastljósviðtal: „Því við vorum alveg meðvituð um hver afstaða RÚV gagnvart KSÍ væri, hún var mjög neikvæð. Við fundum það í öllum samtölum okkar við fréttamenn RÚV. Við vissum hvaða agenda RÚV var að keyra og því var ekki skynsamlegt að fara í þetta viðtal,“ segir Ómar í ritgerðinni.
„Maður hefur heyrt í mörg ár úr Laugardalnum að fólk er þar hrætt að ræða við RÚV því þeir mæti með fyrirfram ákveðnar forsendur. Ég leyfi mér að efast um það en það er þeirra upplifun,“ sagði Hörður.
Tómas tók upp hanskann fyrir Ómar og segir þetta ólíkt því sem hann hafi kynnst af þessum uppáhalds starfsmanni síns hjá KSÍ. „Fólk þekkir ekkert endilega Ómar Smárason sem er einn ljúfasti einstaklingur í heimi. Hann er og hefur verið pund fyrir pund besti starfsmaður KSÍ síðustu 20 árin. Maður sem við í okkar vinnu höfum átt mikil samskipti við og fagmaður fram í fingurgóma.
Þetta er mjög ólíkt honum og nú er ég að giska út í loftið en eitthvað segir mér að hann hafi ekki hugmynd um að ritgerðir séu gerðar opinberar. Því þetta er stórmerkileg lesning.“
Þá tók hann upp hanskann fyrir ríkismiðilinn, trúlega í fyrsta sinn. „Ég held að RÚV sé ekki með neitt agenda gegn KSÍ. Ég held að þeir RÚV-arar sem komu að þessu voru ekki nálægt KSÍ eins og íþróttadeildirnar og fótbolti.net, 433 og svo framvegis. Þeir komu þarna, Magnús Geir Eyjólfsson og fleiri, sem eru ekkert í hringiðjunni og spyrja bara harðari spurninga.“