Harry Kane, fyrirliði enska landsliðsins er orðinn markahæsti leikmaður enska karlalandsliðsins frá upphafi, þetta varð ljóst eftir að hann skoraði annað mark Englands í leik gegn Ítalíu í undankeppni EM í gær. Metið var áður í eigu Wayne Rooney og óskar hann Kane til hamingju með færslu á samfélagsmiðlum.
„Til hamingju Harry Kane með að vera orðinn markahæsti leikmaður enska landsliðsins frá upphafi. Ég vissi að það myndi ekki taka hann langan tíma að bæta metið en hann var ansi fljótur að því. Magnaður maður, ótrúlegur markaskorari og goðsögn enska landsliðsins. Til hamingju Harry,“ skrifaði Rooney í færslu á Twitter eftir að Kane hafði bætt met hans.
Markið sem gerði metið að eign Kane skoraði hann úr vítaspyrnu gegn Ítalíu í gærkvöldi og var um að ræða 54. mark hans á landsliðsferlinum og bætir hann þar með met Wayne Rooney sem stóð í 53 mörkum.
„Þegar að ég sló sjálfur markametið árið 2015, þá var Harry Kane fyrsti maðurinn til þess að hlaupa til mín og fagna með mér,“skrifar Rooney í grein sem birtist á vef The Times í morgun. „Ég vissi að hann gæti orðið mesti markaskorari Englands frá upphafi jafnvel þó að hann væri aðeins kominn með þrjú landsliðsmörk á þeim tíma.“
Enn fremur er Harry Kane markahæsti fyrirliði Englands frá upphafi, sá leikmaður sem hefur skorað flest mörk úr vítaspyrnum fyrir landsliðið, sá leikmaður sem hefur skorað flest mörk á einu ári fyrir landsliðið og sá leikmaður sem hefur skorað flest mörk á stórmótum.
Congratulations to @HKane on becoming @England’s all-time leading goalscorer. I knew it wouldn’t take long but that was quick 🤣. Great man, unbelievable goalscorer and an England legend. Congrats Harry 👏👏👏 pic.twitter.com/mX7M8S8al3
— Wayne Rooney (@WayneRooney) March 23, 2023