Þrjátíu og sjö ára Íslendingur, Geirmundur Hrafn Jónsson, hefur verið dæmdur í átta ára fangelsi í Svíþjóð fyrir frelsissviptingu, nauðgun og hrottalegar misþyrmingar á 25 ára gamalli konu sem hann hélt fanginni í margar klukkustundir.
Heimildin greinir frá þessu en fjallað er um mál Geirmundar í fjölmörgum sænskum miðlum, m.a. Bulletin og Expressen . Geirmundur er kallaður „sexualsadist“ í sænskum fjölmiðlum en ofbeldi hans gegn konunni er svo hrottalegt að fjölmiðlarnir treysta sér ekki til að lýsa því í smáatriðum.
Geirmundur gengur undir nafninu Andre Falk í Svíþjóð og hefur hann á undanförnum 19 árum verið dæmdur samtals fjórum sinnum fyrir gróft ofbeldi gegn konum, nauðganir og misþyrmingar, árin 2004, 2009, 2017 og 2023.
Geirmundur er íslenskur ríkisborgari en fæddur í Lundi í Svíþjóð árið 1986. Foreldrar hans eru íslenskir en hann er ekki með sænskan ríkisborgararétt. Hann hefur aðeins búið á Íslandi um nokkurra mánaða skeið er hann var 17 ára en annars búið alla ævi í Svíþjóð.
Samkvæmt Heimildinni hafa íslensk yfirvöld ekki heyrt af málum Geirmundar og sænsk yfirvöld hafa því ekki kannað möguleika á því að vísa honum úr landi og til Íslands.