Þýska knattspyrnugoðsögnin Philip Lahm ritar pistil sem birtist á vefsíðu The Guardian í tilefni þess að undankeppni EM 2024 í knattspyrnu er nú farin af stað. Lahm segir Evrópu þurfa á því að halda að Evrópumótið fari fram á næsta ári því slík mót geti vakið upp bjartsýni hjá fólki. Þá vill hann sjá öskubuskusögu á borð við ævintýri íslenska landsliðsins á EM 2016.
„Minn draumur væri að sérhver leikmaður myndi finna kraftinn og stoltið sem því fylgir að fá tækifæri til þess að spila fyrir þjóð sína sem og Evrópu,“ skrifar Lahm í pistli sínum.
Evrópukeppnin í knattspyrnu fer fram í Þýskalandi á næsta ári og óskar Lahm eftir öskubuskusögu.
„Ég myndi glaður fagna því að fá eina öskubuskusögu, eitthvað óvænt á borð við Ísland árið 2016,“ skrifar Lahm en íslenska landsliðið komst alla leið í 8-liða úrslit EM árið 2016, fyrsta stórmóti liðsins frá upphafi. „Allir muna eftir víkingaklappi þeirra. Svona mót geta vakið upp bjartsýni.
Eftir kórónuveirufaraldur, innrás Rússa í Úkraínu og orkukrísu væri frábært ef við getum sameinast á EM.“
Vegferð íslenska landsliðsins á EM 2024 í Þýskalandi hefst í kvöld þegar að liðið leikur sinn fyrsta leik í undankeppni mótsins gegn Bosníu & Herzegovinu á útivelli.