A landslið karla mætir Bosníu-Hersegóvínu í dag fimmtudag, í fyrsta leik liðsins í undankeppni EM 2024 sem fram fer í Þýskalandi.
Leikurinn hefst klukkan 19:45 og verður í beinni útsendingu á Viaplay.
Til að sjá landsleikinn á Viaplay þarf að vera með Total Viaplay áskriftarleiðina sem kostar 2999 krónur á mánuði.
„Svona stór sjónvarpsréttur eins og íslenska landsliðið og undankeppni EM í fótbolta kostar mikla peninga. Áskriftin kostar 2990 krónur af Viaplay Total og það er gott verð að mér finnst. Í fyrsta skipti frá upphafi munu Íslendingar sjá alla leiki í undankeppni EM, þjónusta sem aldrei áður hefur verið í boði,“ segir Hjörvar Hafliðason stjórnandi Viaplay á Íslandi.
Viaplay er með réttinn af öllum landsleikjum íslenska karlalandsliðsins næstu árin en Hörður Magnússon og Kjartan Henry Finnbogason lýsa leiknum í kvöld. Þá munu landsliðsmennirnir fyrrverandi, Kári Árnason og Rúrik Gíslason sjá um að greina hlutina fyrir og eftir leik.
Ísland er í J-riðli og mætir, auk Bosníu-Hersegóvínu, Liechtenstein, Slóvakíu, Portúgal og Lúxemborg.