Hætta er á því að Barcelona verði dæmt í bann í Meistaradeildinni vegna gruns um að félagið hafi greitt samtök dómara fjármuni í nokkur ár. Er spænska félagið sakað um að hafa mútað dómurum um langt skeið.
Samkvæmt gögnum sem dómstólar á Spáni hafa undir höndum borgaði Barcelona 7,3 milljónir evra til fyrirtækis í eigu Jose Maria Enriquez Negreira, fyrrum varaforseta dómarasambands Spánar.
UEFA opnaði í dag rannsókn á málinu en yfirvöld á Spáni eru einnig með málið á sínu borði.
Barcelona hafnar öllum ásökunum að hofa borgað dómurum til að hafa áhrif á frammistöðu þeirra í leikjum liðanna. Meint brot Barcelona áttu sér stað frá 2001 til ársins 2018.
UEFA hefur leyfi í reglum sínum til að dæma félög í banni séu þau sek um að hafa brotið reglur í deildarkeppnum heima fyrir.