Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Zenica
Það er komið að leikdegi í Bosníu, þar sem íslenska karlalandsliðið mætir heimamönnum í kvöld.
Um fyrsta leik undankeppni Evrópumótsins 2024 er að ræða, en þangað ætlar Ísland sér.
Liðið æfði í Munchen framan af viku en flaug yfir til Sarajevó í gær. Leikurinn fer hins vegar fram um 70 kílómetrum norðan af höfuðborginni, í Zenica.
KSÍ leigði flugvél undir liðið í gær og hafði hana því út af fyrir sig. Landsliðsþjálfarinn Arnar Þór Viðarsson var spurður út í þetta á blaðamannafundi í gærkvöldi.
„Var þetta ekki fyrir ykkur?“ grínaðist Arnar og uppskar mikinn hlátur viðstaddra. Fjölmiðlafólk fékk nefnilega að fljóta með í vél landsliðsins.
Arnar segist hafa leitað til leikmanna og starfsfólks sem hefur verið lengur í landsliðinu, farið á stórmót og þess háttar, áður en ákvörðun um flugið var tekið.
„Það er ómetanlegt fyrir mig og starfsfólkið að geta leitað í alla þessa visku í kringum okkur.
Þetta sýnir líka ákveðinn metnað. Við erum að fara inn í nýjan keppni og mikilvægan leik. Við viljum gera það vel, líka fyrir leikmennina svo þeir undirbúi sig sem best.“