Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Munchen
Arnór Sigurðsson, einn af lykilmönnum íslenska landsliðsins, er brattur fyrir komandi leik gegn Bosníu og Hersegóvínu í undankeppni Evrópumótsins 2024.
Um fyrsta leik liðanna í undankeppninni er að ræða. Íslenska liðið æfir í Munchen í aðdraganda leiksins en heldur svo til Bosníu á morgun.
„Maður finnur það strax að menn eru vel gíraðir í þetta. Það eru mikilvægir leikir fram undan,“ segir Arnór.
Hann sér framfarir hjá íslenska landsliðinu.
„Við tókum skref fram á við saman í fyrra. Það eru samt enn þá hlutir sem við viljum bæta.
Það hefur alltaf verið mjög góð stemning í hópnum. Við viljum byggja ofan á það sem við erum að gera og þá er engin spurning að við náum þeim markmiðum sem við höfum sett okkur.“
Íslenska liðið ætlar sér að ná í úrslit í Bosníu.
„Það er engin spurning að við förum þangað til að sækja sigur. Þetta verður erfiður leikur. Þeir eru harðir í horn að taka og þetta verður slagur.“
Auk Íslands og Bosníu eru í undanriðlinum Portúgal, Slóvakía, Lúxemborg og Liechtenstein. Arnór telur íslenska liðið eiga góðan möguleika á að komast á EM.
„Ég tel að við séum í góðum séns. Við verðum að setja kassann út og hafa trú á því.“
Mál Arnars Þórs Viðarssonar og Alberts Guðmundssonar hefur verið í brennidepli í aðdraganda leikjanna en Arnóir segir leikmenn ekkert spá í það.
„Við erum alveg einbeittir á að liðið sem er hér og að það sé hundrað prósent klárt í þá leiki sem eru fram undan. Við einbeitum okkur að réttu hlutunum.“
Viðtalið í heild er hér að neðan.