Atli Viðar Björnsson, fyrrum leikmaður FH, segir að það sé gríðarlegt áfall fyrir félagið að fá mál Morten Beck Guldsmed, sem segir FH skulda sér 14 milljónir króna í vangoldnum launum, upp á yfirborðið nú þegar allt virtist vera að fara leika í lyndi hjá félaginu á nýjan leik.
Það vakti athygli á dögunum þegar að greint var fá því að Morten Beck Guldsmed, fyrrum leikmaður FH, ætlaði sér að draga félagið fyrir dómstóla þar sem að hann segir FH skulda sér 14 milljónir króna í laun.
Það var Hjörvar Hafliðason sem greindi frá málavendingunum í hlaðvarpsþættinum Dr. Football
„Hann er farinn með FH-inga í dómsalinn, hann vill meina að FH skuldi sér fyrir meira en tvö tímabil, 14 milljónir. FH viðurkenna skuldina en ekki allan þennan pening. Af gögnum málsins að dæma hefur hann rétt fyrir sér og líklegt að FH-ingar þurfi að borga þetta í topp,“ segir Hjörvar í hlaðvarpi sínu.“
Málið var svo til umræðu í hlaðvarpsþættinum Enn einn fótboltaþátturinn þar sem Atli Viðar Björnsson, fyrrum leikmaður FH, tjáði sig um málið.
„Það sem mér finnst vera mesta áfallið við að þetta mál sé að koma núna upp á yfirborðið er að stemningin í kringum FH undanfarið er búin að vera svo góð,“ byrjaði Atli Viðar á því að segja.
Það hafi góðir hlutir verið að gerast í kringum liðið.
„Og búið að snúa þessum vonda spíral, sem var í gangi í kringum félagið, við.“
Atla Viðari fannst vera komin góður bragur í FH á nýjan leik, eitthvað sem hafði vantað þar á undan.
„Að því leytinu til finnst mér gríðarlegt áfall að þetta mál sé komið upp á yfirborðið og komið í umræðuna, sé að hafa þessi áhrif.“
Hlusta má á nýjasta þátt hlaðvarpsþáttarins Enn einn fótboltaþátturinn hér fyrir neðan: