Jóhannes Karl Guðjónsson, aðstoðarlandsliðsþjálfari íslenska landsliðsins í knattspyrnu, var gestur í þættinum 433.is sem var á dagskrá Hringbrautar í gærkvöldi. Þar fór Jóhannes Karl yfir stöðuna hjá landsliðinu fyrir fyrstu leiki þess í undankeppni EM.
Skagamaðurinn telur þróunina hjá landsliðinu vera í rétta átt.
„Við vorum náttúrulega með mjög ungt lið í Þjóðadeildinni, sem var alveg skemmtilegt þó svo leikirnir höfðu endað með full mörgum jafnteflum en okkur finnst við hafa fengið helst til of lítið úr mörgum leikjum þar. Inn í þetta ár teljum við okkur hins vegar núna vera með svakalega góða blöndu í okkar landsliðshóp af reynslumiklum leikmönnum í bland við unga og hæfileikaríka stráka.“
Það var svo einn ákveðinn tímapunktur í landsliðsverkefnum síðasta árs sem gaf landsliðsþjálfurunum góða vísbendingu um það hvar liðið væri statt á sinni vegferð.
„Við fundum það í síðasta leiknum á útivelli gegn Albaníu í Þjóðadeildinni, þegar að fyrirliðinn okkar Aron Einar var rekinn af velli, að það bjó rosalegur andi í hópnum. Við fundum að það var komin svona rosalega öflug liðsheild og sterkur karakter. Menn voru tilbúnir í að hlaupa fyrir fyriliðann sinn sem þurfti að fara út af snemma leiks. Það er eitthvað sem við tökum með okkur inn í þetta átt. Við búum yfir gríðarlega öflugri liðsheild, reynslumiklum leikmönnum í bland við hæfileikaríka menn.“
Íslenska landsliðið hefur leik í undankeppni EM á fimmtudaginn næstkomandi þegar liðið mætir Bosníu & Herzegovinu á útivelli. Á sunnudaginn tekur svo við leikur gegn Liechtenstein sem fer einnig fram á útivelli.
Viðtalið við Jóhannes Karl í þættinum 433.is í heild sinni má sjá hér fyrir neðan: