Toni Kroos, leikmaður Real Madrid, vorkennir ekki liðsfélaga sínu, Eden Hazard, sem hefur átt mjög erfitt uppdráttar á Spáni.
Hazard kom til Real frá Chelsea árið 2019 og hefur ekki náð að festa sig í sessi og fær fáar mínútur eftir að hafa verið lykilmaður í London í mörg ár.
Kroos vorkennir Hazard þó ekki og segir að aðrar manneskjur séu að upplifa mun verri tíma en sá belgíski er að gera.
,,Auðvitað er þetta erfið staða en það er ekki hægt að vorkenna mönnum í fótbolta,“ sagði Kroos.
,,Ég tel ekki að Eden lifi slæmu lífi. Það er hægt að vorkenna fólki sem hefur það mun verra en hann. Þetta snýst ekki um peninga. Ég vorkenni engum í fótbolta.“