Erik Hamrén, fyrrum landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, hefur verið rekinn úr starfi þjálfara danska úrvalsdeildarfélagsins AaB. Frá þessu er greint í dönskum miðlum í morgun.
Hamrén var ráðinn sem þjálfari AaB í september á síðasta ári og var það í annað skipti sem hann tók við liði félagsins. Áður var hann þjálfari félagsins á árunum 2004-2008 og gerði félagið meðal annars að dönskum meistara tímabilið 2007-2008.
Þessi seinni stjórnartíð hans hefur hins vegar ekki gengið upp. AaB situr á botni dönsku úrvalsdeildarinnar um þessar mundir með 15 stig, einu stigi minna en Lyngby, sem leikur undir stjórn Freys Alexanderssonar.