Samfélagsmiðlanotendur sem fylgja Alejandro Garnacho, leikmanni Manchester United tóku eftir rafsígarettu á mynd sem hann birti og eyddi stuttu seinna á samfélagsmiðlinum Instagram á meðan að Manchester United atti kappi við Fulham í enska bikarnum.
Garnacho, sem er frá vegna meiðsla, var að horfa á leikinn heima hjá sér og birti í því tilefni mynd af sjónarhorni sínu úr sófanum heima.
Glöggir netverjar tóku hins vegar eftir því sem virtist vera rafsígaretta á sófanum hjá hinum 18 ára gamla Garnacho og skömmu seinna mátti sjá að búið var að eyða myndinni úr sögu leikmannsins á Instagram.
Stuttu seinna birtist þó önnur svipuð mynd, hins vegar mátti sjá á þeirri mynd að búið var að fjarlægja það sem virtist vera rafsígaretta.