Ganverski knattspyrnumaðurinn Christian Atsu, sem fannst látinn í rústum byggingar eftir að stór jarðskjálfti reið yfir Tyrkland og Sýrland, verður jarðsunginn í dag í heimabæ sínum.
Fjölmenni vottaði Atsu virðingu sína þar sem kista hans er nú í Accra, höfuðborg Gana. Meðal þeirra sem hafa vottað Atsu virðingu sína er forseti Gana.
Þá voru liðsmenn ganverska landsliðsins í knattspyrnu, sem og liðsfélagar Atsu hjá tyrkneska félagsliðinu Hatayspor viðstaddir á minningarathöfn sem var haldin í Accra.
Atsu var á sínum tíma leikmaður í ensku úrvalsdeildinni og á mála hjá þekktum liðum á borð við Chelsea, Newcastle og Everton. Þá spilaði hann 65 leiki fyrir landslið Gana.