Sjö leikjum af átta leikjum kvöldsins í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar er lokið. Bayer Leverkusen, Roma og Royale Union Saint-Gilloise hafa öll tryggt sér sæti í átta liða úrslitum mótsins eftir úrslit kvöldsins.
Framlengja þarf leik Arsenal og Sporting Lisbon á Emirates leikvanginum, leikar þar standa 1-1 og samanlagt 3-3 í einvígi liðanna.
Í Ungverjalandi mættust Ferencváros og Bayer Leverkusen. Leverkusen hafði unnið fyrri leik liðanna 2-0 og það sama var upp á teningnum í kvöld. Moussa Diaby og Amine Adli skoruðu mörk Leverkusen í kvöld. Liðið vinnur einvígið 4-0 og verður í pottinum þegar dregið verður í átta liða úrslit á morgun.
Á Spáni tóku heimamenn í Real Sociedad á móti Roma. Lærisveinar José Mourinho hjá Roma höfðu unnið fyrri leik liðanna 2-0 og leikur kvöldsins endaði með markalausu jafntefli. Roma er því komið áfram í 8-liða úrslit.
Á Constant Vanden Stock leikvanginum í Belgíu tóku heimamenn í Union Saint Gilloise á móti Union Berlin frá Þýskalandi. Fyrri leik liðanna lauk með 3-3 jafntefli en í kvöld reyndust heimamenn í Gilloise sterkari aðilinn og unnu að lokum 3-0 sigur.
Liðin sem hafa tryggt sig áfram í 8-liða úrslit Evrópudeildarinnar:
Sevilla
Feyenoord
Manchester United
Juventus
Bayer Leverkusen
Roma
Royale Union Saint Gilloise
Arsenal eða Sporting Lisbon