Ekið var á hund á Kaldárselsvegi í dag. Var hundurinn fluttur á dýraspítala í Garðabæ og er hann líklegast fótbrotinn. Var eigandinn látinn vita af slysinu.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu en ljóst er af tilkynningunni að lögreglan hafði í ýmsu að snúast í dag. Tilkynnt var um innbrot í geymslur í Gerðunum. Þrír menn voru handteknir á vettvangi og eru þeir grunaðir um innbrotin. Voru mennirnir vistaðir í þágu rannsóknar málsins og þýfinu skilað til eiganda. Málið er í rannsókn.
Lögregla aðstoðaði við að fjarlæga óvelkominn mann í stofnun í austurbæ en maðurinn hafði komið sér þar fyrir og stolið hreinsunarspritti en hann var að drekka. Viðkomandi kom sér í burtu eftir afskipti lögreglu og eru engar kröfur gerðar á hann.
Lögregla hafði afskipti af manni er svaf í ruslatunnugeymslu í Túnunum. Reyndist hann vera með hníf á sér og var hnífurinn haldlagður og verður maðurinn kærður fyrir brot á vopnalögum.
Tilkynnt var um sinubruna í Garðabæ við strandblakvöllinn. Slökkvilið var kallað út og slökkti það í sinunni.
Óvelkomnum manni var vísað frá sundstað í Breiðholti. Ætlaði hann að fara í sund án þess að borga og var hann ekki með sundföt með sér.
Brotist var inn í geymslur í Breiðholti og meðal annars stolið rafmagshjóli. Málið er í rannsókn.
Ennfremur var tilkynnt um skemmdarverk á bíl í bílakjallara í Kópavogi.
Tilkynnt var um sinubruna í efra Breiðholti. Vegfarendur slökktu eldinn en slökkvilið kom á vettvang til að tryggja að ekki kviknaði aftur í.