Forkólfar PSG Ultras, aðal stuðningsmannakjarna franska úrvalsdeildarfélagsins Paris Saint-Germain ætla sér að baula á eina af stjörnum liðsins, Lionel Messi í komandi leik liðsins gegn Rennes um komandi helgi.
Hópurinn telur að Messi, sem rennur út á samningi hjá félaginu eftir yfirstandandi tímabil, sé á allt of háum launum miðað við vinnuframlag hans inn á vellinum.
Óvíst er hvort framtíð Messi liggi í París en hann hefur bæði verið orðaður við brottför frá PSG en einnig orðaður við að skrifa undir nýjan samning við félagið.
Í samtali við Mundo Deportivo lætur einn af leiðtogum PSG hafa eftir sér að hópurinn ætli sér að baula á Messi í leik liðsins um helgina.
Leikmaðurinn er sagður eiga stóran þátt í því hvernig fór hjá Paris Saint-Germain sem féll úr leik í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu gegn Bayern Munchen.