Jimmy Floyd Hasselbaink, sem á sínum tíma myndaði ógnarsterkt sóknarpar með Eiði Smára Guðjohnsen hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Chelsea er sagður eiga í viðræðum við enska knattspyrnusambandið um að gerast þjálfari í þjálfarateymi Gareth Southgate hjá enska karlalandsliðinu.
Það er The Athletic sem greinir frá en Southgate er að stokka upp í þjálfarateymi sínu hjá enska landsliðinu fyrir undankeppni EM 2024.
Hasselbaink er án starfs eftir að hafa sagt upp störfum sem þjálfari enska neðri deildar liðsins Burton Albion. Hann er hugsaður sem kjörinn arftaki Chris Powell í þjálfarateymi enska landsliðsins en sá lauk störfum með liðinu eftir HM í Katar undir lok síðasta árs.
Hasselbaink er vel þekkt stærð á Englandi en hann skoraði á sínum tíma 127 mörk í ensku úrvalsdeildinni með liðum á borð við Chelsea, Leeds United, Middlesbrough og Charlton.
Á sínum þjálfaraferli hefur Hasselbaink þjálfað lið á borð við Royal Antwerp, Queens Park Rangers og Northampton auk Burton Albion.