Jamie Carragher fyrrum leikmaður Liverpool telur að nú sé nóg komið og að Jurgen Klopp, stjóri Liverpool verði að kaupa hægri bakvörð í sumar.
„Þetta er gríðarlegt áhyggjuefni,“ sagði Carragher eftir að Liverpool féll úr leik í Meistaradeildinni gegn Real Madrid í gær.
Trent hefur fengið mikla gagnrýni fyrir frammistöðu sína í vetur. „Þetta er ekki bara áhyggjuefni fyrir Liverpool heldur hann líka. Þetta getur ekki haldið svona áfram, hann hefur ítrekað verið sofandi varnarlega í vetur.“
„Vandamálið er að hann hefur aldrei fengið neina alvöru samkeppni. Ein ástæðan er sú að hann hefur verið það góður.“
„Núna er hins vegar komið að því að það verður að kaupa hægri bakvörð. Það er ákvörðun Klopp hvernig sá leikmaður er, hvað kostar hann og þar fram eftir. En Trent verður að fá samkeppni, hann hefur spilað á hæsta stigi án hvíldar lengi.“
„Hann hefur unnið allt, hann hefur verið magnaður og gert allt sem mig dreymdi um að gera. Ég er svo stoltur af honum sem uppöldum leikmanni. Hann þarf hjálp, undir lok tímabils þarf hann að horfa í spegilinn og hugsa um hvað hann sé sem hægri bakvörður.“