Albert Brynjar Ingason staðfesti í dag að takkaskórnir væru komnir upp í hillu. Hann segir padel-viðureign við Ríkharð Óskar Guðnason, Rikka G, hafa staðfest fyrir honum að þetta væri komið gott.
Hinn 37 ára gamli Albert var síðast á mála hjá uppeldisfélaginu Fylki en tókst ekki að spila leik með liðinu er það tryggði sér sæti í deild þeirra bestu síðasta sumar.
Einnig hefur Albert leikið með Kórdrengjum, Fjölni, FH, Val og Þór í meistaraflokki.
Albert á að baki 219 leiki í efstu deild og skoraði hann í þeim 70 mörk. Í B-deild skoraði hann 25 mörk í 57 leikjum.
Albert var til viðtals í Sportpakkanum á Stöð 2 í kvöld og sló hann á létta strengi.
„Það var eiginlega okkar maður hér á Stöð 2 sem lokaði ferlinum mínum. Hann tók mig í padel í tvo tíma og jarðtengdi mig þar. Ég fór alveg í hnénu eftir það. Ef ég ræð ekki við Rikka G í padel get ég ekkert spilað fótbolta.“