Leikmenn kvennaliðs meistaraflokks FRAM í handbolta hafa birt yfirlýsingu á Instagram þar sem fordæmt er viðbragðsleysi handknattleikshreyfingarinnar við ósæmilegri hegðun og brotum gegn liðskonum og starfsfólki. Að sögn vefsins handbolti.is er tilefni yfirlýsingarinnar atvik á dögunum þar sem Sigurður Bragason, þjálfari kvennaliðs ÍBV, gerðist sekur um að slá í afturenda starfsmanns Vals eftir leik ÍBV og Vals. Var Sigurður dæmdur í tveggja leikja bann vegna þessarar hegðunar.
„Það voru miklar væntingar meðal íþróttakvenna í kjölfar #metoo, að hreyfingin myndi uppræta allt áreiti og ofbeldi sem alltof margra íþróttakonur og starfsfólk hafa þurft að búa við alla tíð. Því miður er reynslan að sýna okkur að þær vonir raungerast ekki,“ segir í yfirlýsingunni sem lesa má í heild hér að neðan.