Birkir Bjarnason er að reyna að rifta samningi sínum við Adana Demirspor í Tyrklandi og hefur ekki spilað með liðinu undanfarnar vikur.
Birkir er sökum þess ekki í leikmannahópi íslenska landsliðsins sem Arnar Þór Viðarsson valdi fyrir komandi verkefni.
„Við Birkir ræddum auðvitað saman. Hann er í svolítið erfiðri stöðu hjá sínu félagsliði í Tyrklandi, er að spila lítið, miklu minna en hann vonaðist eftir, og er að reyna að losna frá félaginu en það hefur tekið tíma,“ segir Arnar Þór.
Meira:
Landsliðshópur Íslands – Albert Guðmundsson og Birkir Bjarnason ekki í hópnum
Birkir er leikjahæsti leikmaður í sögu Íslands og Arnar vonast til þess að hann komi aftur inn í hópinn.
„Vegna þeirrar stöðu sem hann er í þá vorum við sammála um að hann yrði ekki með að þessu sinni. Birkir er leikjahæsti leikmaður Íslands frá upphafi og hefur enn mikið fram að færa, mikla og ómetanlega reynslu sem nýtist liðinu bæði innan og utan vallar, og hann er þannig leikmaður og karakter að hann setur hagsmuni landsliðsins fram yfir sína eigin.“