„Ég er ekki viss um að fólk átti sig á því hve afbrigðilegir kuldarnir eru. Í Reykjavík er þetta 9. dagurinn þar sem hiti fer aldrei yfir frostmark. Mjög líklega bætist morgundagurinn við þá röð, en hitinn gæti síðan potast upp í 0°C á fimmtudag yfir miðjan daginn,“ segir veðurfræðingurinn Einar Sveinbjörnsson í færslu á Facebook.
Einar segir þetta vera óvenjulega kulda, sama hvernig á það er litið. Sé helst hægt að jafna kuldaköstunum í vetur við marsmánuð 1951, sem sker sig úr í sögunni. Útlit er fyrir að kuldakastinu ljúki fljótlega, en Einar segir í færslu sinni:
„Óvenjulega langur kafli í mars þegar sólin er vissulega farin að verma yfir daginn. Fyrr í vetur náð i samfelldi frostakaflinn í Reykjavík 14 dögum, fyrir jólin. Þá var sólin lægst á lofti.
Meira segja kaldasta marsmánuð í minni eldri núlifandi landsmanna, þ.e. 1979, voru þeir 11 samfelldu frostadagarnir (28. feb – 10. mars). Kælandi hafís var þá lónandi undan öllu Norðurlandi saman með þrálátri N- og NA-áttinni.
Fyrstu 5 dagar mánaðarins voru hlýir, en síðan þá lætur nærri að meðalhitinn sé á milli -6,5 og -7,0°C í Reykjavík.
Jú þetta eru óvenjulegir kuldar hvernig sem á það er litið. Helst að finna samjöfnuð í mars 1951, þá var líka sérlega kalt framan af mánuðinum, en þá reyndar mun verri NA-veður með tjóni og mannskaða. Hafís var hinsvegar ekki nærri landi líkt og nú, eftir því sem ég veit best.“