Þeir starfsmenn íþróttadeildar BBC sem stigu til hliðar um helgina til stuðnings við Gary Lineker verður ekki refsað fyrir að neita að sinna störfum sínum.
Lineker var settur til hliðar af BBC vegna ummæla sinna á Twitter um stefnu breskra yfirvalda í útlendingamálum en nú er búið að leysa málin og snýr hann aftur um næstu helgi. Hann er ekki þekktur fyrir að liggja á skoðunum sínum á eigin vettvangi.
Í kjölfarið stigu starfsmenn á íþróttadeild BBC einnig til hliðar til að sýna Lineker stuðning. Þar má nefna þá Ian Wright og Alan Shearer sem starfa með Lineker í geysivinsælu þáttunum Match of the Day.
Þeim starfsmönnum verður ekki refsað, en það er Daily Mail sem segir frá þessu.
Match of the Day mun snúa aftur um næstu helgi.
„Eftir óraunverulaga daga er ég ótrúlega feginn því að við höfum fundið leið til að vinna úr þessu. Ég vil þakka öllum fyrir ótrúlegan stuðning, sérstaklega þeim sem vinna með mér á íþróttadeild BBC fyrir að sýna ótrúlega samstöðu,“ sagði Lineker í færslu á Twitter í morgun.
„Ég hef fjallað um íþróttir á BBC í næstum þrjá áratugi og er ólýsanlega stoltur af því að vinna á besta og sanngjarnasta miðli í heimi. Ég get ekki beðið eftir að stjórna Match of the Day aftur á laugardag.
Sama hversu erfiðir undanfarnir dagar hafa verið er hins vegar ekki hægt að bera þá saman við að þurfa að flýja heimili þitt vegna stríðs og sækja skjóls í landi sem er langt í burtu. Það er hjartnæmt að sjá samúð margra ykkar með þeim. Við erum áfram þjóð sem er umburðarlynd og býður aðra velkomna.“