fbpx
Fimmtudagur 06.febrúar 2025
Fréttir

Formaður Rithöfundasambands Íslands hefur greinst með heilaæxli og dregur sig í hlé

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 13. mars 2023 12:00

Karl Ágúst Úlfsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Karl Ágúst Úlfsson, landsþekktur leikhúsmaður og rithöfundur, hefur greinst með heilaæxli. Karl Ágúst er formaður Rithöfundasambands Íslands en hann hefur dregið sig í hlé frá þeim störfum af heilsufarsástæðum. Þetta kemur fram í Facebook-hópi félaga í Rithöfundasambandi Íslands þar sem Karl birtir tilkynningu um málið.

Í tilkynningu Karls kemur fram að hann greindist með æxli fyrir þremur mánuðum og reyndist það vera góðkynja. Var æxlið skorið burtu í aðgerð sem heppnaðist vel. Útlitið er því gott en samt er langt þar til Karl hefur endurheimt fyrri starfsorku. Segir hann aðgerðina hafa haft mikil áhrif á heila hans, dregið úr minni og vitsmunalegri getu, en hann hafi endurheimt hluta af starfsgetu sinni með sjúkraþjálfun.

Tilkynningin er eftirfarandi:

„Kæru félagar

Á aðalfundi RSÍ á síðasta ári var ég endurkjörinn formaður til tveggja ára. Í ljósi þess reiknaði ég með að gegna því starfi í sex ár samanlagt, eða frá 2018 til 2024. En ekki er framtíð manns alltaf fyrirsjáanleg og nú hefur komið í ljós að svo muni ekki verða. Það eru heilsufarsleg skakkaföll sem valda því.

Fyrir um það bil þremur mánuðum var ég greindur með heilaæxli. Það reyndist vera góðkynja, ég var snarlega skorinn og æxlið fjarlægt. Aðgerðin heppnaðist vel, en ég á þrátt fyrir það langt í land með að stunda þau störf sem ég hafði tekið að mér. Eitt af þeim er formennska RSÍ.

Áhrif skurðaðgerðar á heila manns geta verið mikil og erfið viðureignar. Aðgerðin dró stórlega úr líkamlegri getu minni, en ég hef náð að endurheimta hluta hennar með sjúkraþjálfun. Það er þó einkum og sér í lagi breytt starfsemi heilans sem háir mér og á að öllum líkindum eftir að skila sér til baka á löngu tímabili. Það hefur kveikt hjá mér alvarlegan efa á að ég búi nú um allnokkurt skeið yfir andlegri og vitsmunalegri getu sem mér þykir nauðsynleg til að sinna formennsku sambandsins jafn vel og æskilegt er. Af þeirri ástæðu óska ég eftir að stíga út úr starfi formanns RSÍ. Ég mun sem sagt ekki gegna embættinu fram að aðalfundi ársins 2024. Margrét Tryggvadóttir varaformaður mun gegna skyldum formanns þangað til annað verður ákveðið.

Mér þykir afar vænt um Rithöfundasamband Íslands og hef tekið að mér margvísleg verkefni fyrir það á þeim fjörutíu árum sem liðin eru frá því ég gerðist þar félagi. Ég hef haft mikla ánægju af starfi sem formaður og þykir því býsna sárt að kveðja það fyrr en ég ætlaði. Ég tel það þó rétta ákvörðun og óska eftir að einhver taki við keflinu sem ræður við það betur en ég um þessar mundir. Loks vil ég þakka það traust sem mér hefur verið sýnt og gott samstarf við annað stjórnarfólk, samninganefndir og alla þá sem tekið hafa að sér að þjóna hagsmunum rithöfunda á öllum sviðum.

Bestu kveðjur til ykkar allra

Karl Ágúst Úlfsson“

DV sendir Karli Ágústi innilegar batakveðjur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Sakar Ingu Sæland um hótanir í garð sjávarútvegsins

Sakar Ingu Sæland um hótanir í garð sjávarútvegsins
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Guðrún boðar til fundar – Er hún á leið í formanninn?

Guðrún boðar til fundar – Er hún á leið í formanninn?
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Svona verður veðrið í dag: „Líklega versta veður ársins“

Svona verður veðrið í dag: „Líklega versta veður ársins“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Svanfríður var á vettvangi hryllingsins í Svíþjóð: „Ofboðslega blóðugur manneskjur, mikil öskur, angist og skothríðin svakaleg“

Svanfríður var á vettvangi hryllingsins í Svíþjóð: „Ofboðslega blóðugur manneskjur, mikil öskur, angist og skothríðin svakaleg“