Ingibjörg Lára Sveinsdóttir var aðeins 16 ára gömul þegar henni var ekið í heimsóknir á Litla-Hraun, árið 2008, þar sem hún fékk athugasemdalaust að hitta þáverandi kærasta sinn, sem var mun eldri en hún og afplánaði þungan dóm. Ekkert eftirlit var með heimsóknum og þá þurfti hún ekki að sýna fram á samþykki forráðamanns. Í heimsóknarherberginu var ítrekað farið gróflega yfir hennar mörk kynferðislega. Þetta kemur fram í forsíðuviðtali Heimildarinnar, sem kom út í dag.
Í umfjölluninni kemur fram að Páll Winkel, fangelsismálastjóri, viðurkenni að á sínum tíma hafi ekki verið nægilega góð tök á málaflokknum en að margt hafi breytst til batnaðar í dag varðandi heimsóknir til fanga.
Í umfjölluninni kemur fram að umræddur kærasti Ingibjargar Láru heitir Tindur Jónsson en hún var nýorðin 15 ára þegar hún kynntist honum. Á þeim tíma var Tindur á Vernd að ljúka afplánun vegna sex ára dóms fyrir tilraun til manndráps. Ingibjörg Lára segir í viðtali við Heimildina að Tindur hafi frá upphafi sambands þeirra þvingað hana til að gera hluti sem hún vildi ekki, það sitji enn þá í henni og hann hafi farið langt yfir hennar mörk.
Brotaferill Tinds var alvarlegur. Auk mannsdrápstilraunarinnar og annarra misalvarlegra líkamsárása þá hlaut hann um þetta leyti átta ára fangelsisdóm fyrir að koma upp amfetamínverksmiðju í Hafnarfirði sem hann stóð að ásamt öðrum samverkamönnum, meðal annars Jónasi Inga Ragnarssyni sem hlaut 10 ára dóm vegna málsins.
Þegar Tindur hóf afplánun á Litla-Hrauni var Ingibjörgu Láru, þá 16 ára, ekið í heimsóknir til hans, annað hvort af foreldrum hans eða vinum hans. Hún segir ekkert eftirlit hafi verið með heimsóknunum og að hún hafi fengið að fara inn án samþykkis forráðamanns. Í viðtalinu í Heimildinni segir hún það sína upplifun að maðurinn hafi brotið á sér inni í fangelsinu.
Árið 2019, ellefu árum síðar, byrjaði Ingibjörg Lára að vinna í áföllum sínum. Kemur fram að hún hafi sent Tindi skilaboð á í gegnum samfélagsmiðla en rétt er að geta þess að hann hefur snúið við blaðinu í lífi sínu, menntað sig og hafið fyrirtækjarekstur. „Ég veit að þú ert ekki vondur maður, en þú hefur gert vonda hluti,“ skrifaði hún meðal annars. Svaraði Tindur skilaboðunum á þessa leið: „Ég hef svo oft viljað heyra í þér og biðjast afsökunar,“ skrifaði hann, axlaði ábyrgð og baðst afsökunar. „Ég sannarlega vildi þér aldrei neitt slæmt, en hafði engan skilning á eðlilegum mörkum.“
Þau komu sér svo saman um að hittast á kaffihúsi til að ræða málið en Ingibjörg Lára lýsir því sem óþægilegri upplifun. „Hann situr þar og grætur fyrir framan mig. Í dag veit ég ekki hvers konar tár þetta voru, hvort þau voru fyrir mig eða fyrir hann, en ég allavega vorkenndi honum,“ segir hún og að sér þyki ákaflega sárt að hugsa til þess að hann hafi þurft að bera það fyrir sig að hafa ekki vitað betur því jafnvel þótt svo hafi verið þá réttlæti það ekki ofbeldið sem hún varð fyrir. Í mörg skipti hafi hún látið hann vita að henni þætti þetta vont en svar hans hefði verið: „Þetta er vont en þetta venst.“
Í umfjöllun Heimildarinnar kemur þó fram að í samtali við Eddu, blaðamann miðilsins, þvertaki Tindur fyrir að hafa farið yfir mörk Ingibjargar Láru.
Eins og áður segir er einnig rætt við Pál Winkel fangelsismálastjóra um hvernig heimsóknum til fanga er háttað í dag og á fyrri tímum. „Það verður að segjast eins og er að í gamla daga og á þessum tíma þá var meira frjálsræði og meiri óformfesta varðandi heimsóknir til fanga. Fangar gátu einfaldlega sett upp heimsóknalista, breytt honum og haft hann eins stóran og þeir vildu. Við erum búin að formfesta þetta mjög mikið síðustu ár vegna þess að við vorum ekki með nógu góð tök á þessum málaflokki,“ segir Páll.
Umfjöllunina má lesa í heild sinni í Heimildinni.