Fjöldi leikmanna Tottenham hafa sett sig í samband við Mauricio Pochettino og hvatt hann til að taka við liðinu á ný í sumar.
Sky Sports segir frá.
Samningur Antonio Conte, sem nú er stjóri Tottenham, rennur út í sumar og eru nær engar líkur á að hann verði framlengdur.
Liðið þykir spila neikvæðan fótbolta undir hans stjórn og þá hefur gengið ekki verið upp á marga fiska. Liðið er í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar og á ekki möguleika á að vinna bikar á þessari leiktíð, fimmtánda árið í röð.
Pochettino stýrði Tottenham frá 2014 til 2019 við góðan orðstýr. Hann kom liðinu til að mynda í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu 2019.
Argentínumaðurinn var síðast hjá Paris Saint-Germain en var rekinn þaðan árið 2022.