fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
HelgarmatseðillMatur

Guðrún býður upp á ómótstæðilega græna helgi

Sjöfn Þórðardóttir
Föstudaginn 10. mars 2023 15:00

Guðrún Kristjánsdóttir frumkvöðull og sælkeri býður upp á grænan og vænan helgarmatseðill sem þið eigið eftir að elska. DV/ANTON BRINK.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðrún Kristjánsdóttir frumkvöðull, önnur systirin í Systrasamlaginu og sælkeri á heiðurinn af helgarmatseðlinum á matarvef DV að þessu sinni. Það má með sanni segja að matseðillinn sé ómótstæðilega girnilegur og skarti réttum sem allir eiga eftir að njóta, sama hvaða mataræði þeir aðhyllast. Stundum er svo gott að endurnærast og borða létt og hollt og um leið ljúffengt, sérstaklega á þessum árstíma, þegar það er vor í lofti í bland við frostið.

„Þessar vikur eru mjög grænar hjá mér. Núna er einmitt tíminn til að skipta úr vetrarmatnum yfir í  vormatinn,“ segir Guðrún sælkeri með meiru. Guðrún og systir hennar Jóhanna hafa rekið Systrasamlagið við Óðinsgötu í næstum tíu ár og fagna 10 ára afmæli í sumar.

Lærst að létta matinn á þessum árstíma

Guðrún segist að með árunum hafi henni lærst að létta matinn á þessum tíma árs. „Mín melting æpir á umbreytingu akkúrat núna. Ég reyni að fylgja kallinu og borða mikið af fersku grænmeti sem ég kaupi ýmist af Frú Laugu eða í áskrift frá Austurlands Food Coop, sem er mikil himnasending. Þá er bara nota ímyndunaraflið og leita hugmynda hjá frábærum grænmetiskokkum og í sinn eigin brunn sem margt hefur safnast í. “

Þótt Guðrún sé að höndla með mat flesta daga í Systrasamlaginu segist hún engu að síður njóta þess að elda heima hjá sér. „Eldamennska hefur verið mín hugleiðsla frá því ég man eftir mér. Mér finnst gott að elda flókna og góða rétti, pæla í mat; sögu hans og innihaldi og líka að skapa eitthvað nýtt. Ætli ég sé ekki það sem kallað er “foodie”.“

Helgarmatseðill Guðrúnar er því með grænna móti og njótið vel.

Föstudagur – Grænmetis lasagna með salvíu og eggaldin

„Grænmetis salvíu eggaldin lasagnaðið mitt kemur að mestu úr smiðju Jamie Oliver og er fastur liður á heimilinu. Ég verð með gesti á föstudag og þá verður því tjaldað til.  Það er einfalt og næstum eldar sig sjálft. Aðalmálið er að fylgjast með og passa að það brenni ekki.

Grænmetis lasagna með salvíu og eggaldin

1, 2 k eggaldin

3 stk. laukar

6 stk. hvítlauksrif

Eitt búnt salvía

Ólífuolía

Börkur af einni sítrónu

1 tsk. chiliflögur

2 dósir heilir tómatar

100 g svartur gouda

100 g parmesan

300 g ferskt lasagna

50 g muldar möndlur

Byrjið á því að forhita ofninn í 200° C. Notið helst stóran og víðan pottjárnspott. Byrjið á því að hita um 300 ml af vatni. Stingið í eggaldinið með gaffli  og skerið svo eftir endilöngu. Setjið út í vatnið. Flysjið laukinn og og skerið í grófa bita. Látið malla saman í vatninu í 20 mínútur. Skerið svo hvítlaukinn og snyrtið til salvíulaufin. Því næst er að búa til holu í miðjunni í pottinum og steikja  þar hvítlauk, chillí og mest af salvíulaufunum og sítrónuberkinum. Þegar hinn gullni fallegi litur birtist er lag að bæta við tómötum, vatni/krafti. Blandið öllu saman og látið malla í aðrar 20 mínútur. Takið af hellunni og saltið og piprið eftir smekk. Setja báða ostana ofan á. Stingtu svo lasagna plötunum hér og þarf ofan í maukið. Lokaðu síðan með topp lagi af lasagna og stráðu yfir muldum möndlum og restinni af salvíublöðunum.

Bakið í ofninum í 25 mínútur, uns yfirborðið er orðið fallega brúnt. Frábært með grænu salati og dressingunni sem ég nota með öllu núna.

Nýja uppáhalds salatdressingin mín á grænt salat

„Þessi brakandi ferska salatdressing er í miklu uppáhaldi um þessar mundir.  Hún gerir allt salat betra. Í raun skiptir ekki málið hvaða græna salat þú notar. Hafðu það bara ferskt.“

Salat dressing að hætti Guðrúnar með galdrabragði

1 stór lífræn sítróna. ½ skorin í sirka 5 sneiðar og úr hinum helningum er kreistur safi.

1 stk. hvítlauksrif, skorið smátt

1 tsk. ljóst eða dökkt eðal mísó

3 msk. rifinn parmesan

4 msk. ólífuolía

Salt og pipar eftir smekk

Byrjið á því að setja sítrónusneiðarnar á sjóðheita pönnu eða grill og steikið í rúma mínútu á hvorri hlið. Það er gott að sítrónan verði með brenndum blettum hér og þar. Út úr því kemur mikið galdrabragð. Þegar grilluðu sítrónurnar eru orðnar volgar skerið í smá bita og setjið í skjál. Blandið sítrónusafa, olíu, mísó og hvítlauk vel saman við. Bætið að lokum parmesan við. Dreifð vel og vandlega yfir brakandi ferskt salatið.

Laugardagur – sunnudagur – Morgundjús sem gleður öll skynfærin

„Mér finnst æðislegt að byrja daginn á grænum þeytingi  þessa daganna og mæli 100% með þessum dásamlega morgundjús.

Morgundjúsinn sem gerir alla daga betri
1 bolli frosið mangó
1 bolli kókosvatn
1 tsk. matchaduft (leysið upp í heitu vatni), eða  notið annað grænt eðalduft.
Safi úr ½ lime
1 lítill biti engifer

Blandið öllu saman í blandara og ég lofa ferskasta þeytingnum bænum.

Laugardagur – Ómótstæðilegt Beet Bourguignon

„Þennan dásamleg ofnrétt er vel hægt að gera deginum áður en hann er borðaður. Hann verður betri fyrir vikið. Eða það er líka gott að gera stærri uppskrift til að eiga alveg örugglega meira til að borða daginn eftir. Beet Bourguignon er eins og nafnið ber með sér grænmetis útgáfa af hinum heimsfræga og kraftmikla Beef Bourguignon. Hér eru rauðrófurnar alveg himneskar og sveppirnir og puy linsurnar bæta því við sem til þarf.  Þetta er uppskrift fyrir sirka fjóra en má vel margfalda.“

Beet Bourguignon að hætti Guðrúnar

2 msk. ólífuolía

1 stk. rauður laukur

4 stk. hvítlauksrif

6 til 8 stk. lífrænar rauðrófur, fer eftir stærð

4 stk. gulrætur

2 greinar af timian

Salt og pipar eftir smekk

Tómatkraftur eftir smekk

2 msk. rauðvínsedik

2 til 3 bollar grænmetiskraftur

3 lárviðarlauf, alveg ómissandi.

2 bollar puy linsubaunir

4 bollar vatn

2 stórir portobello sveppir, eða aðrir ævintýralega góðir sveppir.

Og ef þú vilt bæta sætu við, er gott að setja með nokkrar dökkar þurkkaðar apríkósur, en má sleppa.

Frábært að gera í stórum pottjárnspotti sem setja má í ofn. Geri stundum í leirpotti. Hitið olíuna yfir meðal hita. Bætið við söxuðum lauk og hvítlauk og látið mýkjast. Bætið við rauðrófum, gulrótum, timiani og salti og pipar. Eldið í fimm mínútur. Hrærið í öðru hverju. Bætið við tómatkrafti, rauðvínsediki, krafti og lárviðarlaufum. Látið malla í potti eða ofni í 40 mínútur. Undirbúið sveppi og puy linsur á meðan. Hreinsið linsurnar vel undir rennandi vatni. Sjóðið yfir meðalhitaí 15 til 20 mínútur. Steikið sveppina á pönnu yfir meðal hita uns þeir verða gullnir og fallegir. Blandið að lokum linsunum og sveppunum við allt hitt og nokkrum þurkkuðum vel skornum apríkósum, ef vill. Passið að raki eða sósa verði eftir í réttinum.

Berið fram með sama góða græna salatinu og dressingunni og ég gerði á föstudagskvöld. Það passar fullkomlega við.

Sunnudagur – Sunnudags-aspasinn

„Mér finnst mjög gaman og gott að elda grænmeti á sunnudögum og geri það mjög oft. Aspas verður oft fyrir valinu og nú er tíminn, því ég sé að fallegur aspas er að detta inn í búðirnar. Aspas er frábær á vorin og ofan á allt saman er hann mjög vatnslosandi. Ég elda líka þann hvíta um leið og hann kemur til landsins, og get ekki beðið“

Sunnudags aspasinn

1 búnt grænn aspas
10 litlir tómatar
1 grein rósmarín
Sletta ólífuolía
1 msk. reykt ólífuolía frá Kalios, fæst í Hýalín
Salt og pipar eftir smekk

„Ég byrja á því að forsjóða aspasinn, þar til hann verðu al dente. Hitið síðan ólífuolíu á pönnu og bætið við tómötum. Gott er að steikja þá létt en samt í gegn. Bætið við fersku rósmaríni út í og síðan aspasinum. Léttsteikið aspasinn með tómötunum. Bætið að lokum við reyktu ólífuolíunni og saltið og piprið eftir smekk. Stundum ber ég aspasinn fram á sesambrauði frá Brauðhúsinu og með hleyptu eggi og smá parmesan, sem er voða gott.“

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
25.06.2024

Domino’s býður upp á nakta pizzu

Domino’s býður upp á nakta pizzu
Matur
22.06.2024

Þetta eru augljós merki þess að veitingastaður er skítugur og þú ættir EKKI að borða þar

Þetta eru augljós merki þess að veitingastaður er skítugur og þú ættir EKKI að borða þar
Matur
03.04.2024

Svona áttu að haga þér við matarinnkaupin – 10 siðareglur stórmarkaðanna

Svona áttu að haga þér við matarinnkaupin – 10 siðareglur stórmarkaðanna
Matur
01.04.2024

Tveir veitingastaðir koma nýir á listann yfir þá 10 bestu í Reykjavík

Tveir veitingastaðir koma nýir á listann yfir þá 10 bestu í Reykjavík
Matur
10.01.2024

Þjóðarréttur Íslendinga valinn sá versti í heimi

Þjóðarréttur Íslendinga valinn sá versti í heimi
Matur
27.12.2023

Guðfaðir „ristaðs brauðs með avókadó“ látinn langt fyrir aldur fram

Guðfaðir „ristaðs brauðs með avókadó“ látinn langt fyrir aldur fram
Matur
06.12.2023

Pylsutilboðið vinsæla hjá Costco er dýrast á Íslandi

Pylsutilboðið vinsæla hjá Costco er dýrast á Íslandi
Matur
05.12.2023

Þriðjudagstilboð Domino´s hækkar í þriðja sinn á rúmum tveimur árum

Þriðjudagstilboð Domino´s hækkar í þriðja sinn á rúmum tveimur árum