Tvær vikur eru í að karlalandsliðið í knattspyrnu hefji leik í undankeppni Evrópumótsins 2024. Sparkspekingurinn Kristján Óli Sigurðsson fór yfir sviðið í samtali við Fréttablaðið í aðdraganda leikjanna, sem eru gegn Bosníu og Hersegóvínu og Liechtenstein. Þar voru mál Arnars Þórs Viðarssonar landsliðsþjálfara og Alberts Guðmundssonar meðal annars rædd.
Albert hefur verið úti í kuldanum hjá Arnari í undanförnum verkefnum og er ólíklegt að hann verði valinn nú.
„Er hann búinn að hringja í Arnar? Ef ekki þá verður hann ekki valinn. Mér finnst það liggja í augum uppi. Við getum heldur betur notað hann, sama hvort það er í byrjunarliði eða að hann komi inn af bekknum ef okkur vantar mark. Á móti Liechtenstein ætti hann svo að geta skorað með bundið fyrir augun,“ segir Kristján.
Hann segir afar slæmt að þessi staða hafi komið upp.
„Þetta er hrikalegt. Hann átti að taka við kyndlinum af gulldrengjunum. Maður hafði það alltaf í huga því hann var í hópnum á HM í Rússlandi, kom meira að segja við sögu. Ég held því að það hefðu allir búist við því að hann yrði fyrsti maður á blað árið 2023. Ég veit ekki hvað gerðist á milli þeirra en við erum bara ekki með það marga góða leikmenn að við höfum efni á svona þvælu.
Það er dauðafæri að fara á EM í Þýskalandi. Við vitum hvað það gerði fyrir Ísland að fara á EM í Frakklandi. Við verðum að hafa alla klára um borð. Það er þeirra að leysa þetta.“
Landsliðið er ítarlega rætt við Kristján í Fréttablaðinu.