Saido Balde, 14 ára leikmaður þýska liðsins HSV hneig niður í leik liðsins gegn SV Eichede á þriðjudag. Greint er frá málavendingunum á þýska vefmiðlinum Bild.
Balde, sem er talinn mjög efnilegur knattspyrnumaður, hefur verið að spila upp fyrir sig hjá HSV með undir 17 ára liði félagsins. Hafði hann spilað 15 leiki með liðinu til þessa, skorað þrjú mörk og átt fjórar stoðsendingar.
Leikmaðurinn hefur verið orðaður við stórlið á borð við Borussia Dortmund, Benfica og Paris Saint-Germain.
Balde var að gera sig klárann í að koma inn á sem varamaður í umræddum leik þegar að hann hneig niður á hliðarlínunni.
Læknateymi HSV fór strax að huga að honum og lá grunur um að hann hafi fengið flogakast. Eftir að hafa fengið aðhlynningu á vellinum var hann í kjölfarið fluttur á háskólasjúkrahúsið Eppendorf.
Líðan Balde er góð miðað við allt, hann eyddi aðfaranótt miðvikudags á sjúkrahúsinu en fékk leyfi til þess að halda heim núna í morgun.
HSV mun í kjölfarið vilja að leikmaðurinn gangist undir rannsóknir áður en hann fær grænt ljós á að snúa aftur til æfinga.