Eden Hazard ætlar ekki að yfirgefa Real Madrid í sumar, þrátt fyrir orðróma um annað. The Athletic segir frá þessu.
Samningur Hazard rennur út eftir næstu leiktíð. Real Madrid hefur reynt að losa hann til annars félags síðan 2021 en án árangurs.
Hazard varð dýrasti leikmaður í sögu félagsins 2019 þegar hann var keyptur í spænsku höfuðborgina á um 100 milljónir punda frá Chelsea.
Hann hefur hins vegar engan veginn staðið undir væntingum og nú er hinn 32 ára gamli Hazard úti í kuldanum.
Þrátt fyrir það ætlar Belginn að sitja út samning sinn í Madríd.
Fjölskylda Hazard er sögð afar sátt í borginni og vill ekki flytja. Sonur hans er meira að segja að spila með barnaliðum Real Madrid.
Í vetur lagði Hazard landsliðsskóna á hilluna eftir Heimsmeistaramótið í Katar með belgíska landsliðinu.