38 ára stuðningsmaður West Ham liggur þungt haldinn á sjúkrahúsi í Kýpur eftir að hafa dottið úr rútu á hraðbraut í gær.
Maðurinn var ásamt fimm öðrum stuðningsmönnum West Ham í lítilli rútu þegar hann féll frá borði.
Maðurinn er þungt haldinn en hann var mættur til Kýpur til að sjá leik West Ham gegn AEK Larnaca í Sambandsdeildinni á fimmtudag.
Í fjölmiðlum í Kýpur segir að maðurinn hafi verið drukkinn og með tæplega 2 grömm af kókaíni á sér þegar hann féll úr rútunni.
Í fréttum segir að hann hafi verið fluttur á Nicosia General sjúkrahúsið og þar sé nú reynt að bjarga lífi hans
32 ára ökumaður rútunnar hefur verið handtekinn en við lyfjapróf fannst kókaín í blóði hans.