Edda Björk Arnardóttir, sem flutti þrjá syni sína með einkaflugvél til Íslands frá Noregi í fyrra, í óþökk föður þeirra, hefur nú fullreynt alla kosti sína innan íslenska réttarkerfisins, eftir að Hæstiréttur hafnaði málskotsbeiðni hennar. Faðir drengjanna í Noregi fer með forræði þeirra.
Fyrir rúmlega mánuði síðan staðfesti Landsréttur úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um synirnir skuli teknir úr umsjá Eddu og þeim komið til föður þeirra í Noregi. Edda skaut málinu til Hæstaréttar sem neitar að taka það fyrir.
Í ákvörðun Hæstaréttar kemur fram að Edda telji að málið varði mikilsverða almannahagsmuni og hafi fordæmisgildi fyrir önnur mál sem höfðuð eru á grundvelli laga um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl. Einnig hafi dómur í málinu fordæmisgildi um vernd fjölskyldusameiningar á grundvelli mannréttindasáttmála Evrópu. Ennfremur byggir Edda umsókn sína á því að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur og brjóti í bága við dómafordæmi Landsréttar og Mannréttindadómstóls Evrópu.
Hæstiréttur fellst ekki á þetta og segir:
„Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að það hafi slíkt fordæmisgildi að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Jafnframt eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Enda þótt málið varði mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda háttar svo almennt til í málum sem lúta að málefnum barna. Beiðninni er því hafnað.“
Edda Björk vildi ekki tjá sig um málið er DV leitaði eftir því en sagði yfirlýsingar að vænta frá henni.