Brasilíska stórstjarnan Neymar þénar ansi vel hjá Paris Saint-Germain.
Hann gekk í raðir PSG frá Barcelona árið 2017 fyrir 200 milljónir punda og varð þar með dýrasti leikmaður sögunnar.
Nú hefur spænska blaðið El Mundo birt áhugaverð smáatriði í samningi Neymar hjá PSG.
Þar kemur fram að leikmaðurinn þéni rúmlega 540 þúsund evrur, um 81 milljón íslenskra króna, á mánuði fyrir að vera kurteis, stundvís, vingjarnlegur og opinn fyrir því að ræða við aðdáendur.
Þá greinir blaðið einnig frá því að samkvæmt samningi Neymar megi hann ekki gagnrýna taktískt upplegg PSG og að hann eigi að forðast það að viðhafa neikvæð ummæli um félagið og þá sem þar starfa.
Það var greint frá því í gær að Neymar þyrfti að fara í aðgerð og að hann missi af 3-4 mánuðum með PSG.
Brasilíumaðurinn hefur verið að glíma við meiðsli á ökkla og þarf hann að fara undir hnífinn.