Victor Osimhen á sér þann draum að leika einn daginn í ensku úrvalsdeildinni.
Nígerski framherjinn er á mála hjá Napoli og hefur farið á kostum þar á þessari leiktíð.
Hinn 24 ára gamli Osimhen hefur skorað 21 mark í 26 leikjum fyrir Napoli á þessari leiktíð.
„Ég er að vinna svo hart að mér til að ganga úr skugga um að ég muni einn daginn uppfylla draum minn um að spila í ensku úrvalsdeildinni,“ segir Osimhen.
Þessi ummæli gætu reynst tónlist í eyrum stjórnarmanna Manchester United. Félagið ætlar sér að fá framherja í sumar og er Osimhen talinn einn af þeim sem eru á listanum.
Osimhen er hins vegar þolinmóður.
„Þetta er ferli og ég vil bara halda áfram að standa mig. Serie A er ein af fimm bestu deildum í heimi og þetta er frábær tilfinning.“