Það er ljóst að Neymar verður ekki meira með Paris Saint-Germain á þessari leiktíð vegna meiðsla. Þetta kom í ljós í dag og hefur stjarnan nú tjáð sig.
Neymar meiddist á ökkla á dögunum í sigri PSG á Lille og hefur verið frá undanfarna tvo leiki.
Nú er ljóst að meiðslin eru alvarleg og þarf Neymar að fara í aðgerð. Hún fer fram í Doha á næstu dögum. Neymar mun svo ekki æfa með PSG í 3-4 mánuði í kjölfarið.
„Ég mun koma sterkari til baka,“ segir Neymar með mynd sem hann birti af sér á Instagram fyrir stuttu.
PSG mætir Bayern á útivelli í seinni leik liðanna í Meistaradeild Evrópu á miðvikudag. Bayern leiðir 1-0 eftir fyrri leikinn í París. Ljóst er að franska liðið verður án Neymar í þeim leik.