Lionel Messi hefur gefið í skyn að hann væri til í að vera áfram hjá Paris Saint-Germain eftir sumarið.
Samningur hins 35 ára gamla Messi við PSG rennur út eftir tímabilið. Hann gekk í raðir félagsins sumarið 2021 frá Barcelona, en hann hafði leikið allan sinn meistaraflokksferil með Börsungum.
„Mér líður frábærlega hjá PSG,“ segir argentíski heimsmeistarinn.
Messi segist líða mun betur á yfirstandandi leiktíð heldur en þeirri síðustu.
„Mér gekk erfiðlega að aðlagast París á fyrsta árinu mínu af ýmsum ástæðum. Nú líður mér hins vegar vel og ég nýt mín mikið.
Ég byrjaði þetta tímabil öðruvísi, með miklum eldmóð og vilja. Mér líður betur hjá félaginu, í borginni og skil um hvað París snýst.“
Messi hefur verið stórkostlegur á þessari leiktíð fyrir PSG. Hann hefur skorað 18 mörk og lagt upp 16 fyrir liðið í öllum keppnum.