Það eru miklar líkur á að Manchester United kaupi sér nýjan framherja í sumar. Félagið hefur til að mynda mikinn áhuga á Tammy Abraham hjá AS Roma.
Erik ten Hag ætlar sér að fá inn framherja í sumar. Wout Weghorst kom á láni frá Burnley í janúar og er engin framtíðarlausn, þó svo að hann gangi endanlega í raðir United í sumar.
Abraham hefur skorað 34 mörk í 28 leikjum fyrir Roma síðan hann kom til félagsins frá Chelsea sumarið 2021. Á síðustu leiktíð hjálpaði hann liðinu að vinna Sambandsdeildina.
Klásúla er á milli Roma og Chelsea um að síðarnefnda félagið megi kaupa Abraham aftur á 67 milljónir punda og hafi þar af leiðandi forkaupsrétt á honum. Það er þó ekki þar með sagt að Graham Potter, eða sá sem verður við stjórnvölinn hjá Chelsea í sumar, hafi áhuga á að kaupa framherjann.
Njósnarar United hafa fylgst með Abraham í vetur og er útlit fyrir að hann sé á blaði hjá félaginu fyrir sumarið.
Draumur United er að fá Harry Kane og þá er Victor Osimhen einnig á óskalistanum. Ljóst er að Abraham yrði ódýrari kostur en þessir tveir.