Á meðan Covid-faraldurinn gekk yfir samfélagið og harðar samkomutakmarkanir voru í gildi þá fékk þríeykið svonefnda yfir sig alvarlegar hótanir frá fólki sem mislíkaði samkomutakmarkanirnar. Þetta kemur fram í heimildarþáttaröðinni Stormur sem RÚV hefur sýnt undanfarin sunnudagskvöld.
Fréttablaðið tekur þetta saman en þeir Víðir og Þórólfur sögðu í þættinum þeir hefðu meðal annars áhyggjur af því að vera skotnir í gegnum eldhúsgluggann heima hjá sér. Heimili þríeykisins voru vöktuð og þar uppsett kerfi sem var beintengt lögreglu. Þórólfur segir meðal annars að í eitt skiptið hefði hann vaknað um miðja nótt við símtal frá lögreglu og voru þá sérsveitarmenn með hríðskotabyssur og vasaljós í garðinum.
Þórólfur sýndi dæmi um ruddaleg og ógnandi skilaboð sem hann fékk í gegnum Facebook Messenger:
„Drullastu til að opna líkamsræktar“
„Þú ert nu meiri viðbjóðurinn, trúi ekki að þú sért það besta sem Ísland getur boðið á þessum tíma. Allt sem þú segir er nú meiri fkn drullan.“
„Fokking leðurhommadraslið þitt. Dreptu þig. Eina sem ég vil er að fara á skíði.“
Þórólfur greinir síðan frá því að með eftirfarandi skilaboðum hafi birst símanúmer hans sem og heimilisfang og nöfn sona hans:
„Skítahrappurinn þinn. Hvernig dettur þér í hug að loka landinu, litli skíturinn þinn? Settu það á kassann að það vilja fjörutíu sextán ára krakkar lemja þig.“
Rætt var við eiginkonu Þórólfs, Söru Hafsteinsdóttur, sem lýsir því að hún hafi fengið mjög þreytandi símtöl í heimilissímann vegna starfa Þórólfs. Þurfti hún stöðugt að útskýra fyrir fólki að hún ynni ekki hjá Landlæknisembættinu og gæti ekki losað fólk úr sóttkví. Endaði það með því að þau sögðu símanum upp.