„Þetta er pirrandi, mjög vond úrslit,“ segir Bruno Fernandes sem bar fyrirliðabandið hjá Manchester United í 7-0 tapi gegn Liverpool á Anfield í gær.
Fernandes hefur fengið hvað mesta gagnrýni á sig af leikmönnum Manchester United eftir þetta tap.
„Við komum með annað hugarfar, fyrri hálfleikurinn var mjög góður. Við stjórnuðum honum að mestu leyti, síðari hálfleikurinn var langt frá okkar besta,“ segir Fernandes.
Liverpool hafði 1-0 forystu í hálfleik en Cody Gakpo skoraði seint í fyrri hálfleik. Allt hrundi svo hjá United í síðari hálfleik.
„Við gáfum of mikið svæði, við vitum hvaða hættur þeir skapa. Við vitum að við getum betur, núna er það bara næsti leikur.“
„Við reyndum að svara í leiknum en við hættum að vera liðsheild og í jafnvægi. Við gáfum of mikið svæði til baka fyrir lið sem er öflugt að sækja hratt.“
„Við vitum að við erum mjög gott lið og getum gert vel. Við höfum spilað vel og nú er að gera það aftur, við erum í Evrópudeildinni og bikarnum. Við verðum að komast á skrið.“