Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool og Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United hafa tekið höndum saman fyrir stórleik liðanna á morgun og biðla til stuðningsmanna liðanna um að syngja ekki níðsöngva um hræðilega atburði sem hafa átt sér stað í sögu beggja félaga.
Það er Sky Sports sem greinir frá en í sögu beggja félaga má finna mannskæða atburði á borð við Hillsborough og Munich slysin.
,,Ein aðal ástæðan fyrir því af hverju rígurinn á milli Liverpool og Manchester United er svona sérstakur er ástríðan og það ætti aldrei að breytast.
Hins vegar, þegar of mikið kapp færist í leikinn, getur það borið okkur ofurliði og komið okkur fyrir á stað sem er ekki góður fyrir neinn, við þurfum þetta ekki,“ sagði Klopp í yfirlýsingu.
Yfirlýsing Erik ten Hag tekur í sama streng, kappið megi ekki bera menn ofurliði.
,,Rígurinn á milli Manchester United og Liverpool er einn sá mikilfenglegasti í knattspyrnuheiminum. Við elskum ástríðu stuðningsmannanna þegar að liðin mætast en til eru takmörk, línur sem ekki ætti að stíga fæti yfir.“
Hillsborough atburðurinn árið 1989 tók líf 97 stuðningsmanna Liverpool á heimavelli Sheffield Wednesday í undanúrslitum enska bikarsins þar sem Liverpool mætti Nottingham Forrest.
Í svipuðu slysi fjórum árum áður, sem kennt er við Heysel létust 39 stuðningsmenn í úrslitaleik í Evrópukeppni milli Liverpool og Juventus.
Munich slysið varð síðan þegar að flugvél, sem innihélt meðal annars leikmenn og þjálfarateymi Manchester United, brotlenti við flugtak frá Munich-Reim flugvellinum með þeim afleiðingum að 23 létu lífið.