Leon Bailey, leikmaður enska úrvalsdeildarfélagsins Aston Villa og landsliðsmaður Jamaíka gæti hafa verið að koma sér í mikinn klandur eftir að myndir og myndband af honum anda að sér hláturgasi fóru í dreifingu á samfélagsmiðlum.
Það er The Sun sem greinir frá málavendingunum en á myndunum, sem teknar voru snemma morgun eftir partýstand, má sjá Bailey vera farþegi í bifreið þar sem hann heldur á stórri blöðru.
Heimildir The Sun herma að leikmaðurinn hafi farið í afmælisveislu hjá vini sínum eftir sigur Aston Villa gegn Everton á dögunum, partýstandið hafi þá haldið áfram langt fram á morgun en á myndunum og myndskeiðinu má sjá að þær voru teknar klukkan 07:19 í Birmingham.
Það var stuðningsmaður Aston Villa, John Parry sem sendi umrætt myndband til The Sun, hann á ungan strák.
,,Sonur minn dýrkar Bailey og á treyju merkta honum. Þessi hegðun er forkastanleg.
Hann á að heita atvinnumaður og fyrirmynd en hefur brugðist sjálfum sér sem og félaginu. Svona ábyrgðarlaus hegðun má ekki viðgangast án refsingar.“
Auk þess að vera leikmaður Aston Villa er Bailey landsliðsmaður Jamaíka. Eyjamaðurinn Heimir Hallgrímsson er landsliðsþjálfari Jamaíka.