Enska götublaðið The Sun greinir frá því nú í morgunsárið að enski sóknarmaðurinn Mason Greenwood, leikmaður Manchester United, verði aldrei aftur valinn í enska landsliðið svo lengi sem Gareth Southgate er landsliðsþjálfari þess.
Málefni Greenwood utan vallar hafa verið í brennidepli í rúmt ár núna, eða frá því í janúar árið 2022 þegar að hann var handtekinn, grunaður um nauðgun og ofbeldisbrot gegn unnustu sinni.
Greenwood var skömmu eftir handtöku sleppt lausum gegn tryggingu og hóf lögregla rannsókn á málinu í kjölfarið. Málið hefur nú verið látið niður falla og samkvæmt nýjustu fréttum hafa Greenwood og umrædd unnusta hans, Harriet Robson tekið aftur saman og eiga von á barni.
Manchester United, félagslið Greenwood hefur hafið innri rannsókn á málinu en ekki hefur verið tekin ákvörðun um framtíð leikmannsins innan félagsins. Greenwood hefur hvorki æft né spilað fyrir Manchester United síðan í janúar 2022.
Hvað landsliðsferilinn varðar þá virðist hann vera upp í loft. Eini A-landsleikur Greenwood hingað til kom gegn Íslandi á Laugardalsvelli í Þjóðadeild UEFA. Í kjölfar hans kom Greenwood sér í klandur með liðsfélaga sínum Phil Foden en þeir félagarnir gerðust sekir um að brjóta sóttvarnarreglur.
Heimildarmaður The Sun segir Greenwood enn vonast til þess að spila á hæsta gæðastigi knattspyrnunnar. Hins vegar sé Gareth Southgate þannig þenkjandi að aðeins knattspyrnulegir hæfileikar einstakra leikmanna verði til þess að þeir verði valdir í landsliðið.
Southgate leggur mikla áherslu á það að leikmannahópurinn allur í heild sinni funkeri vel saman, erfitt sé að taka Greenwood inn í þá jöfnu.