fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Fókus

Eyvindur Karlsson létti sig um 50 kíló á einu ári – „Sumir dagar voru hreinlega ógeðslega erfðir en ég náði að vinna úr tilfinningum mínum á heilbrigðari hátt“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 4. mars 2023 09:00

Eyvindur Karlsson. Mynd/Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Mér hefur verið sagt að matarfíkn sé ekki til, sem mér finnst bæði fyndið og skrítið því ég er matarfíkill,“ segir Eyvindur Karlsson, tónlistarmaður, leikari, leikstjóri, rithöfundur og þýðandi. 

„Kannski er ekki hægt að skilgreina matarfíkn á sama hátt og alkóhólisma en það er sama hvaða orðalag við notum, þetta er átröskun.“

Eyvindur er búinn að losa sig við 50 kíló.

Búinn að losa sig við 50 kíló

Eyvindur, sem er 41 árs tveggja barna faðir,  hefur misst hvorki meira né minna en 50 kíló á síðasta ári.

„Ég var 135 kíló þegar ég var sem þyngstur árið 2020 og 132 kíló þegar ég hóf prógragrammið um áramótin 2021/2022.“

Hann er 83 kíló í dag og aðspurður um hvenær hann hafi verið það síðast verður hann hugsi.

„Ég veit það bara ekki, kannski þegar ég var 14 ára? Það var allavega einhvern tíma á unglingsárunum.“

Eyvindur segist halda að fíkn hans í mat hafi byrjað þegar hann var um 10 ára gamall. Það sé aftur á móti ekki langt síðan að hann áttaði sig á að um raunverulegt vandamál væri að ræða. 

„Matur var bara matur,“ segir Eyvindur.

Eyvindur Karlsson. Mynd/Valli

„Á þessum árum voru erfiðleikar í samskiptum við stjúpforeldra, ég varð fyrir einelti í skóla og annað slíkt.

Ég bjó norður í landi, átti ekki marga vini, og held að ég hafi byrjað að leita í mat sem einhvers konar huggun. Ég tengi þetta svolítið við það tímabil þótt það hafi verið ómeðvitað þá.“

Allt eru þetta tilfinningahækjur

Og svo komu unglingsárin. „Þá fór maður að leita í fleira, drekka áfengi og reykja sígarettur og allt verður þetta einhvers konar tilfinningahækja á einn eða annan hátt.“ 

Eyvindur segir að stundum sé eins og maður hitti á óskastundir í lífinu, og nefnir þrjár slíkar sem hafa haft áhrif á líf hans og heilsu. 

„Sú fyrsta var þegar ég hætti að reykja, fyrir um tólf árum síðan. Ég hafði oft reynt að hætta en það hafði aldrei enst meira en í tvær vikur eða svo. Á þessu tímabili var ég farinn að hreyfa mig meira, byrjaður að skokka, og fann hvað lungun voru í slæmu ástandi. 

Og þá var allt í einu ekkert mál að hætta að reykja.“ 

Eyvindur borðar nú með allt öðru hugarfari.

Síðasta kartonið

Eyvindur hætti að reykja þegar að hann flutti frá London þar sem hann var að læra leikstjórn. „Ég sagði við sjálfan mig, eins og svo margir þekkja, ekki síst ég sjálfur, að ég ætlaði bara að kaupa eitt karton, klára það og hætta síðan. 

En í þetta skiptið stóð ég við það, kláraði kartonið úr fríhöfnininni og hef aldrei reykt síðan.“

Næsta óskastund Eyvindar kom fyrir um tveimur og hálfu ári síðan. 

„Ég hætti þá að drekka. Það var mjög fyndið augnablik þegar ég tók þá ákvörðun að ég þyrfti að hætta. Ég var þá einu sinni sem oftar að reyna að grenna mig og var á ketó. En þá fattaði ég að ég að það var ekki hægt að vera á ketó og drekka áfengi á meðan, þannig að ég fór að spá í hvort ég ætti að taka pásu.“ 

Þá hafi læðst að honum hugmyndin um hvort hann ætti kannski bara alfarið að hætta að drekka? 

„Ég fékk hreinlega kvíðakast við tilhugsunina og þá vissi ég þetta var hvorki hollt né heilbrigt samband við áfengi og hætti að drekka.“

Eyvindur Karlsson. Mynd/Valli

Kvöldsullið

Hann segist ekki vita hvort um alkóhólisma  sé að ræða og fór ekki í meðferð. 

„En áfengisneyslan var farin að hafa áhrif á heilsuna þótt ég væri ekki fullur öll kvöld eða reglulega að detta í það. En maður var í þessu sulli á kvöldin og það í Covid sem gerði málin enn verri. Meltingin var komin í vitleysu og ég var líkamlega í slæmu ástandi.

Auðvitað var aukakílóunum að stórum hluta um að kenna en drykkjan hjálpaði ekki til.“ 

Eyvindur segist hafa fitnað eftir að hann hætti að drekka. „Maður skiptir út einni fíkn fyrir aðra,“ bætir hann við.  

„Ég hitti þarna á óskastund með reykingarnar, svo með áfengið og í þriðja skiptið með matinn. Það var ekki eins og maður hefði ekki reynt þetta áður.

Ég hafði reyndar aldrei reynt að hætta að drekka áður en ég hafði reynt að minnka það eða taka pásu en það gekk aldrei til lengdar.“

Eyvindur Karlsson

Of fókuseraður

Hann samþykkir að hugsanlega sé margt athyglisbresti um að kenna þótt hann sé ekki með formlega greiningu. Ekki enn.

„Ég gleymi nefnilega alltaf að fara með pappírana, sem er augljóst merki um athyglisbrest,“ segir Eyvindur og hlær. 

„Persónulega held ég að þetta sé ákveðin birtingarmynd af ADHD, að vera eins hýperfókuseraður og ég get verið. Það á auðvitað alls ekki við um alla og ég hélt alltaf að ég gæti ekki verið með ADHD því ég hef alltaf átt gott með að einbeita mér.

En ég get kannski orðið of fókuseraður, þurft að fara alla leið, en berjast svo við að missa ekki áhugann upp úr þurru.

Ég hef því þurft að finna mínar eigin leiðir til að missa ekki áhugann á því að drekka ekki, hugsa sífellt um mat og svo framvegis.“

Eyvindur Karlsson. Mynd/Valli

Allskonar lífstengdir kvillar

Eyvindur léttist verulega fyrir um tíu til tólf árum, aðallega vegna dugnaðar við hreyfingu.

„En ég tók það allt á mig aftur og meira til.  Síðan þá hef ég verið að hreyfa mig, mismikið, tekið mataræðið í gegn öðru hvoru, kannski losnað við 10-15 kíló, sem síðan hafa komið aftur.“

Eyvindur gat litið framhjá mörgu þar sem heilsan var alltaf þolanleg.  

„En í lok árs 2021 fór ég til læknis, þá rétt orðinn fertugur, og er þá kominn með alltof háan blóðþrýsting, kæfisvefn, of háan blóðsykur og allskonar lífstílstengda kvilla sem tengjast því að vera í yfirþyngd.

En þú hefðir ekki horft á mig á götu og talið mig vera að deyja úr offitu þótt ég hafi auðvitað verið allt of þungur.“

Eyvindur segir það hafa verið vitundarvakningu og þá um áramótin hafi hann ákveðið að taka á málunum.

Hann vildi halda heilsunni og tók allar ákvarðanir út frá því. 

Þriðja óskastundin

„Fyrst ætlaði ég í ketó en svo kynntist ég bók sem heitir Bright Line Eating og fór á námskeið í þeirri aðferðafræði á netinu.“

Um var að ræða þriðju óskastund Eyvindar.

Hann segir Bright Line Eating nota afar svipaðar aðferðir og hugmyndafræði og OA samtökin þótt að nálgunin sé ekki nákvæmlega eins og kannski jákvæðari en í OA.

Eyvindur tekur fram að sjálfur hafi hann ekki verið í OA, hafi enga persónulega reynslu af starfinu, en hafi heyrt að sumum finnist nálgun samtakanna á köflum í neikvæðari kantinum. 

Eyvindur Karlsson. Mynd/Valli

Óheilbrigt samband við mat

„Bright Line Eating byggir á jákvæðni og að byggja einstaklinginn upp. Nálgunin er út frá vísindum og sálfræði gengur út á að endurþjálfa heilann og laga efnaskiptin og boðefnin í heilanum.“ 

Aðspurður um hvað hafi laðað hann að þessari ákveðnu hugmyndafræði og út á hvað hún gangi segir Eyvindur án þess að hugsa sig um að það sé í meginatriðum að laga samband einstaklingsins við mat. 

„Það er engin hreyfing í þessu, bara mataræði og fólk er reyndar hvatt til þess að fara ekki af stað í hreyfingu fyrr en það er komið á góðan stað í matarræðinu. Það er vegna þess að það er nauðsynlegt að ná rétta viljastyrknum og það að kúvenda bæði mataræði og fara að hreyfa sig líka á sama tíma er of mikið fyrir flesta.“

Eyvindur Karlsson

Eyvindur segir algengt að fólk ani af stað og ætli sér allt í einu. „En bara það að byrja að borða rétt krefst meiri viljastyrks en margir hafa, sérstaklega ef við erum vön því að borða eins og vitleysingar,“ segir Eyvindur og brosir út í annað.  

„Meginupplagið er að breyta þessu óheilbrigða sambandi sem við mörg hver höfum við mat.“

Fjórar ófrávíkjanlegar reglur

Spurður um hvort það séu ákveðnar reglur sem beri að fylgja játar Eyvindur því.  

„Það eru fjórar meginreglur sem eru ófrávíkjanlegar. Í fyrsta lagi má ekki borða mjöl. Og þá er ekki bara átt við hveiti, bygg- eða rúmmjöl, heldur líka möndlumjöl, kókoshveiti og annað slíkt gervihveiti. Í raun má ekkert borða sem er malað. 

Allur sykur er bannaður, líka gervisykur og öll sætuefni. Þriðja reglan er að borða þrjár máltíðir á dag og ekkert þar fyrir utan og sú fjórða að vigta allt sem maður borðar. 

Þessar þrjár máltíðir eiga að vera af réttri strærð, til að fá rétt hlutföll af næringarefnum, en maður er ekki að telja kaloríur, bara vigtar sitt prótein og grænmeti.“

Eyvindur segir að í byrjun hafi hann talið að hann myndi ekki ráða við þetta.

„Ég hef oft reynt að telja hitaeiningar og finnst það óbærilega ömurlegt en þetta reyndist miklu auðveldara. Ég vigta bara mitt magn af grænmeti, próteini og öðrum uppistöðuatriðum í stað þess að mæla hvert einasta hráefni og þá er þetta komið.“

Eyvindur Karlsson. Mynd/Valli

Að standa með sjálfum sér

Eyvindi líður vel og það sést. 

„Það er ekki fyrst og fremst útlitið sem hefur látið mér líða betur heldur miklu frekar að hafa staðið með sjálfum mér í þessu í meira eða minna heilt ár. Ég tók þá ákvörðun að breyta þessum hluta lífs míns og hef staðið við það fullkomlega síðan.“

Hann segir síðustu tvö árin í einkalífinu hafa verið erfið.

„Árið 2021 missti ég bæði ömmu mína og afa sem voru mér mjög náin, ég gekk í gegnum skilnað í fyrra, reyndar mjög „góðan“ skilnað, en skilnaður er alltaf erfiður. Og ég kannski ekki búinn að gera upp sorgina vegna ömmu og afa þegar ég skildi.

Ég missti líka vinnu sem ég var mjög ánægður með og það hafði líka sín slæmu áhrif.“

Eyvindur Karlsson

Var eins og flak

Eyvindur flutti einnig tvisvar á innan við ári og segir að á tímabili í fyrra hafi hann verið eins og flak.

„En ég komst í gegnum þetta án þess að éta eða drekka tilfinningar mínar.  Og það er eitthvað sem efldi mitt sjálfstraust mjög mikið og kannski hjálpaði það mér að vinna hraðar úr mínum tilfinningum.

Ég fór líka til sálfræðings, leitaði mér hjálpar eins og maður á að gera þegar maður er að ganga í gegnum erfiðleika og náði að vinna úr þessum áföllum frekar hratt, auk þess sem ég hef meiri orku og úthald.“

Eyvindur segir að fyrir aðeins um tveimur árum hefði hann örugglega tekist á við erfiðleika sem þessa með því að borða meira.

„Og jafnvel drekka. Sumir dagar voru hreinlega ógeðslega erfðir en ég náði að klára þennan pakka með því að vinna úr tilfinningum mínum á heilbrigðari hátt. Og ég er býsna stoltur af því.“ 

Hann bendir á að fólki geti liðið alveg jafn illa innra með sér þótt búið sé að bæta skrokkinn. „Það eitt og sér, er ekki alltaf lykillinn að vellíðan.“

Eyvindur Karlsson. Mynd/Valli

Allt þetta eftir fertugt dæmi

Er Bright Line Eating lífstíllinn kominn til að vera hjá Eyvindi? 

„Núna er ég ekki lengur að léttast jafn mikið. Allt árið í fyrra fór bara í að sinna matarræðinu og það er í föstum skorðum.

Núna er ég meira farinn að huga að hreyfingu, styrk og liðleika, öllu þessu sem maður þarf að sinna eftir fertugt til að líkaminn haldi áfram að fúnkera,“ segir Eyvindur og jánkar glottandi tuði blaðamanns um hvað margt hafi tilhneigingu til að verða erfiðara eftir að ákveðnum aldri er náð.

„Maður slakar aðeins á þessu og ég er að borða töluvert meira og aðeins öðruvísi en ég gerði fyrir ári síðan en ég vigta samt alltaf allt sem ég borða. Ég er líka orðinn svo vanur því að það er mér orðið fullkomlega eðlilegt. Ég geri það reyndar ekki ef ég fer út að borða en það eru sumir sem gera það, taka vigt með sér og það er alveg í góðu en ég geri það ekki.

Enda er venjulegur skammtur á veitingastað ekki það stór. Svo lengi sem ég er ekki að panta mér heila pizzu eða slíkt er ég bara góður.“

Viljastyrkur hálfgerð mýta

Eyvindur sofnar aldrei á vaktinni. „Auk þess að vigta matinn held ég matardagbók og fylgist vel með líkamanum og þyngdinni. Og ef ég finn að eitthvað er að breytast? Þá fínstili ég mig.“

Hann segir allt þetta ganga út á vana.

„Eins og ég minntist á hitti ég á eitthvað töfraaugnablik og tók ég þetta það föstum tökum fyrstu mánuðina að ég skrifaði niður allt það sem ætlaði að borða þann daginn og stóð við það. Þetta varð hluti af minni rútínu, annað hvort á kvöldin áður en ég fór að sofa eða á morgnana, og eftir þrjá mánuði var þetta orðið mér það eðlilegt og ég þurfti ekkert að pæla í því lengur.“

Eyvindur neitar því að ekki að þetta hafi verið stór og erfið breyting í upphafi.

„Ég heyri svo oft fólk segja að ég hljóti að hafa mikinn viljastyrk. En ég held að það sé ekki málið og viljastyrkur vilji oft verða hálfgerð mýta. Þess í stað snúist þetta um að finna sína rútínu og sína leið til að gera hlutina auðveldari.  Sjálfur hef ég haft fyrir vana á hverju morgni til margra ára að drekka tvö vatnsglös, taka lyfin mín og kveikja á kaffivélinni og hugsaði ekki einu sinni út í það. 

Þannig að bæta við að skrifa niður matinn fyrir daginn var fljótt að bætast við rútínuna.“ 

Svo ótalmargt breytt

Aðspurður um hvernig heilsan sé í dag segist Eyvindur ekki hafa farið aftur í svefnrannsókn enda taki hún langan tíma og kæfisvefn hans hafi aldrei verið það mikill. 

„Það var margra mánaða bið eftir niðurstöðum, svo kom ársbið eftir tæki og það er bara nýlega sem haft var samband við mig og sagt að það væri komið tæki fyrir mig.“

Eyvindur hlær og hristir höfuðið. „En samkvæmt fólki sem sefur nálægt mér hrýt ég ekki mikið lengur svo ég afþakkaði pent og sagði þeim endilega að láta einhvern fá tækið sem þurfi meira á því að halda. 

Blóðþrýstingurinn er góður, ég er hættur á bakflæðislyfjum, sem ég hafði verið á í mörg ár, og finn ekki fyrir slíku lengur. Svo breytast bara ótrúlegustu hlutir sem auka lífsgæðin töluvert. Eins og að klæða sig, ganga upp stiga, beygja sig… svo ótalmargt.“

Eyvindur fer reglulega í jóga og er sérstaklega hrifinn af hot jóga. 

„Það er alveg magnað hvað það er auðveldara þegar ég er þetta mikið léttari. Og nú kemst ég í gegnum heilan tíma án þess að taka pásur til að hvíla mig því ég var alveg búinn á því hér áður.“

Loksins ber að ofan

Eyvindur fór einmitt í hot jóga sama morgun og viðtal þetta var tekið.

„Í morgun þorði ég í fyrsta skipti að vera ber að ofan, segir Eyvindur. „Það er allt í góðu að vera ber að ofan með sína bumbu og ekki nokkur maður að dæma næsta mann. En þetta var feimnismál hjá mér áður, og það er gott að finna að svo er ekki lengur. Þetta gerði mikið fyrir mig, persónulega, ekki síst upp á sjálfsöryggið.“ 

Eyvindur hlær og bætir við að einnig hafi hlutir breyst sem hann hafi aldrei átt von á.

„Hausinn á mér er búinn að minnka og allir hattarnir mínir voru orðnir of stórir á mig. Því átti ég aldrei von á, að vera með fitu á höfuðkúpunni? En jú jú, það er víst þannig.“

Eyvindur Karlsson. Mynd/Valli

Hversu gaman var að kaupa ný föt?

Eyvindur rúllar aftur augunum og hreinlega malar eins og köttur.

„Ég keypti jakkaföt fyrir fermingu eldri stráksins míns en þau voru orðin alltof stór þegar kom að þeim yngri og ég þurfti ný. Auðvitað er þetta dýrt en algjörlega þess virði að líða þetta vel í eigin líkama.“

Aldrei að bera sig saman við aðra

Eyvindur lauk nýlega við leikstjórnarverkefni  hjá leikfélagi Keflavíkur, á revíunni Suðurnesja Svakasýn, sem hefur vakið mikla lukku í Reykjanesbæ.

Hann er auk þess að klára plötu sem hann byrjaði að vinna fyrir rúmum áratug, Sú er um raðmorðingja og við taka lærðar umræður um hvernig unnt er að semja falleg lög um hræðilega menn, umræða sem fyllilega kallar á annað viðtal.

Eyvindur er leikari og tónlistarmaður, leikstýrir, hefur sinnt þýðingum og var uppistandari á árum áður. 

 

Eyvindur gaf út plötuna Má bjóða þér minna? á síðasta ári

„Kannski væri ég betri ef ég gæti haldið mig við eina listrein. Ég veit það ekki. Sennilega væri ég til dæmis allt öðruvísi tónlistarmaður ef ég væri ekki leikari en maður á ekki að vera að bera sig saman við aðra. Enginn er betri í að vera þú en þú,“ segir Eyvindur Karlsson, tónlistarmaður, leikari, leikstjóri, rithöfundur og þýðandi.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 6 dögum

Svali lítur til baka á kostina og gallana við að flytja til Tenerife – „Að læra að sigrast á aðstæðum annars staðar“

Svali lítur til baka á kostina og gallana við að flytja til Tenerife – „Að læra að sigrast á aðstæðum annars staðar“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Þekktustu „besties“ landsins kynna nýtt verkefni – Frumsýning á háleynilegum stað í hjarta höfuðborgarinnar

Þekktustu „besties“ landsins kynna nýtt verkefni – Frumsýning á háleynilegum stað í hjarta höfuðborgarinnar