Fyrrum knattspyrnudómari í ensku úrvalsdeildinni, Mark Clattenburg, íhugar að leita réttar síns eftir að Danny Simpson, fyrrum leikmaður Leicester City lét hafa það eftir sér að dómarinn hefði ekki rekið liðsfélaga Simpson hjá Leicester af velli sökum þess að hann vildi að félagið myndi verða Englandsmeistari.
Simpson lét ummælin frá sér í hlaðvarpsþætti á dögunum en þau hafa farið öfugt ofan í Clattenburg sem þvertekur fyrir að hafa gert það sem Simpson lýsti.
,,Ég man eftir Clattenburg. Vá ég taldi að hann hefði átt að senda einhvern af velli. Hann sagði eitthvað á borð við ‘Ég hefði átt að reka þig af velli en ég vil að þið vinnið þetta’ við einhvern.
Ég lét eins og ég heyrði þetta ekki en ég var að deyja úr hlátri innra með mér og hugsaði í gríni að nú væri þetta í höfn hjá okkur,“ sagði Simpson í umræddum hlaðvarpsþætti.
Simpson telur að Clattenburg hafi látið umrædd ummæli falla í samtali sínu við Danny Drinkwater, þáverandi leikmann Leicester sem hafði skömmu áður brotið af sér á gulu spjaldi.
Clattenburg er allt annað með ummæli Simpson og í samtali við Daily Mail segist hann íhuga að leita réttar síns.
,,Ég þvertek fyrir þessar ásakanir af hálfu Danny Simpson, þær eru út í hött. Þetta er alvarlegt mál sem vegur að mínu orðspori.
Það að halda því fram að ég hafi sagt leikmanni að ég vildi að Leicester yrði Englandsmeistari er fáránlegt. Þetta hefði heyrst í samskiptakerfinu sem við dómarar erum með á okkur í leikjum.“
Þar að auki spjaldaði Clattenburg ekki Danny Drinkwater umrætt tímabil, því hafi hann ekki geta sýnt honum hans seinna gula spjald.
,,Þessar ásakanir eru ekki á rökum reistar og ég veit ekki af hverju, sjö árum seinna, hvers vegna hann ákveður að láta þetta frá sér. Málið er nú í höndum lögmanns míns.“