Eyjólfur Kristjánsson kom í Íþróttavikuna með Benna Bó sem sýnd er á Hringbraut á föstudagskvöldum. Eyfi er með stórtónleika í Háskólabíó í apríl en vegna Covid var ekki hægt að halda upp á sextíu ára afmælið fyrr en nú. Meðal gesta er að sjálfsögðu Stefán Hilmarsson en þeir félagar hafa lengi troðið upp saman.
Stefán styður Arsenal en Eyfi er gallharður Manchester United stuðningsmaður. Þeir félagar eru þó ekkert í því að stríða hvor öðrum á úrslitum sinna liða, ekki einu sinni þegar Manchester United vann Arsenal 8-2 í margfrægum leik. „Við ræðum ekkert fótbolta nema á góðum nótum. Við erum ekkert að elda grátt silfur þó hann sé Arsenal maður og ég sé Utd maður. Og ég get meir að segja sagt að ég geti vel unað við ef Arsenal vinnur titilinn. Ég er búinn að segja það lengi að Arsenal verði meistari. Þeir eiga ekkert nema skítalið eftir.“
Hörður Snævar Jónsson, íþróttafréttastjóri Torgs, sat í settinu með Eyfa og benti á að Arsenal ætti samt bæði Liverpool og Manchester City eftir. Eyjólfur var þó ekki á þeim buxunum að breyta um skoðun. „Það er einhvern tímann í apríl eða maí og þá verður titillinn kominn. Þangað til eiga þeir lið sem þeir eiga að rúlla upp.“