Í morgun blasti við borgarbúum heldur óvenjuleg sjón, svo virtist sem auglýsingar margra fyrirtækja á auglýsingaskiltum Billboard væru ólæsilegar vegna mistaka. Í þær vantaði stafina A, B og O. Hér er hins vegar ekki um mistök að ræða heldur samfélagsherferð til að minna landsmenn á mikilvægi blóðgjafa.
Með þessu vilja þau fyrirtæki sem taka þátt í herferðinni vekja athygli á að á ári hverju þurfa rúmlega 2.000 sjúklingar á blóðhlutum að halda og að Blóðbankann vanti blóðgjafa. Fyrirtækin „gáfu“ sín A, B og O og hvetja landsmenn til að gera það sama. Verkefnið er tilkomið eftir hugmyndafund hjá auglýsingastofunni Aldeilis og Sjóvá og sækir að hluta til innblástur í svipaða herferð í Bretlandi.
Fyrirtækin sem um ræðir eru Sjóvá, Elko, Hagkaup, Ali, Optical Studio, Tuborg, Krónan, Domino‘s, Bílréttingar Sævars, Bónus, VR, Þekking og Pósthúsið Mathöll.
Á vef Blóðbankans má sjá hvaða blóðtegundir vantar helst hverju sinni og eru landsmenn hvattir til að skoða það vel að gerast blóðgjafar.
„Við vildum minna á mikilvægi blóðgjafa, en hver einasta blóðgjöf getur víst bjargað þremur mannslífum og stór fyrirtæki geta hvatt starfsfólk til að gefa blóð, meðal annars með því að leyfa starfsfólki að gefa blóð á vinnutíma. Meira að segja þeir sem ekki geta gefið af einhverjum ástæðum geta tekið þátt með því að hvetja aðra til blóðgjafa. Sjóvá er ansi stór auglýsingakaupandi og við vildum nýta það pláss sem við höfum til að styðja þetta mikilvæga og skemmtilega verkefni,“ segir Jóhann Þórsson, markaðsstjóri Sjóvá.
„Blóðbankinn fagnar þessu frábæra framtaki íslenskra fyrirtækja. Samfélagsleg ábyrgð verður vart sett í fallegri búning. Við leggjum höfuðáherslu á það í okkar starfsemi að tryggja öryggi blóðgjafa og blóðþega. Á hverju ári þurfa rúmlega 2.000 einstaklingar á 15.000 blóðhlutum að halda. Þetta eru systur, mæður, feður og samborgarar sem þurfa blóðgjöf til að hljóta bata í gegnum krabbameinsmeðferð, stórar aðgerðir, slys, fæðingar og vist nýbura á Vökudeild, svo eitthvað sé nefnt. Í dag eru 6.000 virkir blóðgjafar á Íslandi; 4.000 karlar og 2.000 konur. Markmið Landspítala er að fjölga í hópi virkra blóðgjafa svo að þeir verði amk 8.000 að 2 árum liðnum,“ segir Sveinn Guðmundsson, yfirlæknir Blóðbankans.