Efling hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna miðlunartillögu sem ríkissáttasemjari hefur lagt fram í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins (SA). Þar rekur Efling hvernig tillagan kemur í kjölfar einingar, baráttuvilja og hugrekkis sem félagið sé stolt af. Hvetur Efling félagsfólk til að greiða atkvæði um tillöguna og taka sjálfstæða afstöðu til hennar.
Efni miðlunartillögunnar má finna hér. Bendir Efling á að í meginatriðum sé tillagan samhljóða kjarasamningi Starfsgreinasambandsins við SA en þau séu nokkrar veigamiklar breytingar. Búið hafi verið til nýtt starfsheiti fyrir almennt starfsfólk á hótelum og raðast almennt starfsfólk, meðal annars hótelþernur, einum launaflokk hærra í töflu en áður.
Eins fylgi tillögunni aðskilið samkomulag um innleiðingu á bónus fyrir bílstjóra hjá Skeljungi og Olíudreifingu vegna aksturs með hættuleg efni og sömuleiðis hafi náðst samkomulag við Samskip um 28 prósent hækkun á ábata í vinnustaðasamningi og hækkun á launaflokki bílstjóra með ADR-réttindi [rétt til að keyra með hættuleg efni] um einn.
„Frá því samningar við SA urðu lausir þann 1. nóvember hefur samninganefnd Eflingar barist af öllu afli fyrir ásættanlegum kjarasamningum fyrir Eflingarfélaga.
Róður deilunnar þyngdist mjög þegar tilkynnt var að Starfsgreinasambandið hefði þann 3. desember 2022 undirritað samning við SA. Frá þeim tímapunkti lögðust önnur stéttarfélög, SA og ríkissáttasemjari á eitt um að þvinga Eflingu til samþykktar á þeim samningi óbreyttum. Efling og samninganefnd félagsins hefur því mánuðum saman barist við ofurefli.“
Efling hafi frá upphafi bent á að SGS-samningurinn hentaði ekki Eflingarfólki. Fulltrúar stéttarfélaganna sem hafi undirritað samningana í desember hafi undanfarnar vikur bent á að forsendur samninga hafi reynst rangar og að tryggja hefði átt þá betur gegn verðbólgu.
Efling rekur að illa hafi gengið að fá SA í alvöru samningaviðræður. Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttasemjari, hafi ekki stuðlað að slíkum viðræðum og sjálfur látið sig vanta á vinnufundi sem hann hafi boðað sjálfur milli jóla og nýárs.
Í raun hafi deilan að lokum farið að snúast um það hvort Eflingu væri í raun heimilt að semja sjálfstætt og hvort hægt væri að neyða félagið til að samþykkja SGS-samninginn. Hafi Aðalsteinn reynt að koma því til leiða með miðlunartillögu sem Efling telur að hafi verið ólögmæt og hafi klárlega aðeins verið sett fram til að koma í veg fyrir verkföl.
„Þvert á lög vanrækti Aðalsteinn allt samráð við Eflingu áður en hann lagði fram tillögu sína, og vanrækti jafnframt að leiða deiluaðila saman til eiginlegra samningaviðræðna. Hafnaði félagið frá upphafi tillögunni sem lögleysu og markleysu.“
Ráðherrar hafi staðið þétt að baki Aðalsteini og varið gjörðir hans.
„Guðmundur Ingi Guðbrandsson ráðherra vinnumarkaðsmála vildi ekki að hitta fulltrúa Eflingar til viðræðna um miðlunartillöguna, heldur kaus fremur að fara til útlanda.
Í opinberum ummælum sínum um lögbrot embættis ríkissáttasemjara gegn verka- og láglaunafólki hafa Guðmundur Ingi og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra aldrei viðurkennt þann ósóma sem í þeim brotum fólst, heldur einungis rætt um nauðsyn þess að breyta vinnumarkaðslöggjöfinni. Hlýtur það að teljast óvenjulegt að fulltrúar meirihlutans á löggjafarþingi Íslendinga bregðist við lögbrotum með því að kenna lögunum um, fremur en að beina sjónum að þeim sem lögin brýtur samkvæmt staðfestri niðurstöðu dómstóla.“
Efling hafi varið miklum tíma í að undirbúa verkfallsaðgerðir og þrátt fyrir „linnulausan áróður og hótanir“ bæði frá SA og eigenda hótelanna hafi aðgerðir verið samþykktar með miklum meirihluta.
Eflingarfélagar hafi sýnt samstöðu sína og baráttuvilja með fjöldasamkomum og mótmælaaðgerðum sem hafi verið þær fjölsóttustu og kraftmestu sem sést hafi áratugum saman.
„Þátttaka í slíkum aðgerðum var algjörlega valkvæð og ekki skilyrði fyrir afgreiðslu verkfallsstyrks.
Mótmæli fyrir utan ráðherrabústaðinn þann 10. febrúar leiddu til þess að formaður Eflingar og fulltrúar Eflingarfélaga fengu viðtal við forsætisráðherra, sem sýndi þó kröfum og aðstæðum Eflingarfélaga sama tómlæti við það tækifæri og við öll önnur tækifæri sem henni hafa gefist til að tjá sig um sögulega baráttu láglaunafólks í þessari kjaradeilu.“
Eftir að Ástráður Haraldsson hafi verið skipaður í stað Aðalsteins hafi viðræður farið fram og loks hafi SA fengist að samningaborðinu. Þær viðræður hafi þó siglt í strand þó litlu hafi munað og hafi það verið SA að kenna.
Þá hafi SA gripið á það ráð að boða til verkbanns.
„Tilgangurinn með verkbanninu var sá að tæma vinnudeilusjóð Eflingar, að hræða Eflingarfélaga til hlýðni og að þrýsta á stjórnvöld að taka afstöðu með SA í kjaradeilunni.
Efling lýsti því yfir frá fyrsta degi að vinnudeilusjóður félagsins yrði ekki nýttur til að fjármagna þetta níðingsverk. Þá komu fljótt í ljós miklir brestir í röðum atvinnurekenda, sem unnvörpum lýstu sig óbundna af verkbannsboðuninni. Þá leiddi könnun félagsins meðal Eflingarfélaga í ljós að fjölmargir atvinnurekendur treystu sér ekki til að veita starfsfólki neinar upplýsingar um afstöðu til verkbanns, augljóslega í trausti þess að ekki kæmi til beitingar á þessari hótun.
Svo fór að verkbanni var frestað einhliða af hálfu SA með þriggja daga fyrirvara þann 27. febrúar. Beiting þessarar hótunar, sem var tilraun til að marka upphaf nýs og ógeðfellds kafla í sögu íslensks vinnumarkaðar, mun seint gleymast.“
Efling lýsir yfir miklu stolti af einingu, baráttuvilja og hugrekki Eflingarfélaga, en baráttan hafi verið gegn óréttlátu þjóðfélagsskipulagi. Efling hafi öðlast mátt til að verða raunverulegt hreyfiafl breytinga í samfélaginu.
„Með baráttu síðustu mánaða hefur félagið staðfest að umbreytingu þess í baráttusamtök verður ekki snúið við.
Félagið hvetur félagsfólk til að greiða atkvæði, kynna sér efni miðlunartillögunnar og taka sjálfstæða afstöðu til hennar í atkvæðagreiðslu.
Efling – stéttarfélag mun halda áfram baráttu sinni fyrir réttlæti til handa verka- og láglaunafólki, þar sem félagsfólk eru fjölmenn, sameinuð og sýnileg.“