Yfirvöld hófu rannsókn á málinu í haust eftir að foreldrar byrjuðu opinberlega að láta í ljós áhyggjur sínar af tilraunum hjúkrunarfræðingsins til að fá þá til að láta ekki bólusetja börn sín. Hjúkrunarfræðingurinn starfaði á heilsugæslustöð í Santurtzi, sem er um 12 km frá Bilbao. Foreldrarnir létu einnig í ljós áhyggjur af hvernig hjúkrunarfræðingurinn bar sig að við að sprauta börnin.
The Guardian segir að málið hafi komist í fréttirnar nýlega þegar 42 fjölskyldur höfðuðu mál þar sem hjúkrunarfræðingnum er gefið að sök að hafa falsað skjöl og að hafa misfarið með opinbert fé.
„Allar þessar fjölskyldur hafa verið bólusettar, eða ekki, af þessum hjúkrunarfræðingi,“ sagði Aitzol Asla, lögmaður fjölskyldnanna. „Sumir tóku eftir að hún bar sig undarlega að við bólusetningarnar. Hún sprautaði mjög hratt og svo var eins og hún henti öllu glasinu í ruslið,“ sagði Asla.
Hjúkrunarfræðingurinn hafði það verkefni að bólusetja börn gegn sýkingum á borð við heilahimnubólgu og lifrarbólgu B.
Eftir kvartanir foreldra í september, gerðu embættismenn ónæmispróf á um 50 börnum sem höfðu verið bólusett á heilsugæslustöðinni. Þeim var skipt í tvo hópa, eftir því hvaða hjúkrunarfræðingur hafði bólusett þau.
Í ljós kom að börnin í öðrum hópnum voru ekki með gott ónæmi. Þeim var boðið upp á almennilega bólusetningu og það sama á við um 400 börn til viðbótar sem talið er að umræddur hjúkrunarfræðingur hafi annast.